Gefum okkur stund fyrir dund

eftir Guðrúnu Áslaugu Einarsdóttur

Guðrún Áslaug Einarsdóttir, Rúna

Þegar börn dunda sér þá er það talið merki um að þeim líði vel. Þau eru upptekin í einhverju sem nær að fanga huga þeirra og gleyma stað og stund. Það getur verið hvað sem er, leikur, bók, spil eða annað.

Þegar við sem fullorðin dundum okkur þá er það ekki endilega talið eins jákvætt. Okkur verður þá kannski ekki nógu mikið úr verki, við erum að gera ónauðsynlega hluti og ættum frekar að verja tímanum í annað.

En okkur líður vel þegar við dundum okkur. Við erum ekki undir pressu heldur gerum hlutina á okkar hraða og náum að sökkva okkur ofan í verkefnin og gleyma okkur. Það er gott að gefa sér tíma til að dunda. Dundið tengist vellíðan, slökun, sköpun, létti og áhyggjuleysi sem eru allt þættir sem  vinna gegn streitu og vanlíðan.

Hvort sem dundið er tiltekt í skúffu eða skáp, rölt um nánasta umhverfi, lestur eða að láta hugann reika,  þá er aðalmálið að finna hluti sem fanga huga okkar og láta okkur líða sem best.

Gefum okkur stund fyrir dund!

Hvað varst þú að gera síðast þegar þú gleymdir þér í dundi?

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.