Flottur hópur ungmenna sem hélt Götuhátíð til styrktar Ljósinu

Jafningjafræðsla Hins hússins

Jafningjafræðslan hélt Götuhátíð til styrktar Ljósinu/Mynd: Hitt húsið

Þann 9. júlí síðastliðinn hélt Hitt húsið Götuhátíð Jafningjafræðslunnar, til styrktar Ljósinu. Jafningjafræðarahópurinn samanstendur af ungmennum á aldrinum 16-19 ára og öll skipulagning hátíðarinnar var í þeirra höndum. Hátíðin gekk mjög vel, margt fólk mætti og góð stemming myndaðist.

Meðal þeirra sem komu fram voru: Svala Björgvins, JóiPé & Króli, Alda Dís, Aníta Rós og Dans Brynju Péturs, Sólborg, sem heldur úti Instagram-síðunni Fávitar, Patrekur Jaime, Birta Líf Ólafs, Mikael Kaaber, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Hildur Yeoman. Einnig var svokallað lifandi bókasafn á hátíðinni.

Glæsilegt happdrætti var þar sem veglegir vinningar voru í boði og miðarnir seldust upp á mettíma. Allur ágóði af hátíðinni rann óskertur til Ljóssins. Hópurinn safnaði 211.500 kr.

Innilegar þakkir fyrir hlýhug og frábært framtak.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.