Tíminn er dýrmætur, ekki sóa honum

eftir Maríu Ólafsdóttur

„Manni lærist að tíminn er dýrmætur og þú átt ekki að sóa honum. Því er mikilvægt að umgangast fólk sem þér finnst skemmtilegt og gera það sem þér finnst skemmtilegt,“ er lærdómur sem Magnea Mist Einarsdóttir, 21 árs Reykvíkingur, dregur af því að hafa greinst með eitlakrabbamein á fjórða stigi, í janúar 2019.

Magnea var hikandi við að sækja endurhæfingu en lætur ekkert stoppa sig í dag

Undanfarin misseri hefur Magnea sótt endurhæfingu í Ljósið sem hún segir hafa skipt miklu máli í að koma heilsunni aftur á góðan stað.

„Það reyndist mér ómetanlegt að koma í Ljósið þó ég ætti líka góðan vinahóp sem ég hélt fullu sambandi við. Enda er gott að vera í hópi fólks sem hefur gengið í gegnum það sama alveg sama á hvaða aldri það er. Ég ætlaði ekki að þora að koma hingað fyrst en mamma hvatti mig til þess og mig langar að nota tækifærið og hvetja ungt fólk til að koma í Ljósið,“ segir Magnea, sem hefur sótt ýmis námskeið í Ljósinu, stundað þar endurhæfingu og nýtt sér aðra þjónustu.

 

Málar af kappi

Magnea lauk nú í vor fyrsta námsári sínu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og hefur fundið sig vel í náminu. Í framtíðinni segist hún hafa hug á því að starfa annað hvort við félagsráðgjöf tengda börnum eða fíklum. Í menntaskóla var Magnea á myndlistarbraut og hún hefur málað mikið upp á síðkastið, bæði heima fyrir og í Ljósinu.

„Eftir greininguna byrjaði ég að mála mun meira heima. Ég hugsa að það hafi hjálpað mér eitthvað ómeðvitað enda er mjög þægilegt og róandi að mála með tónlist í eyrunum, í sínum eigin heimi. Annars mála ég svo sem ekkert tengt veikindunum heldur mjög abstrakt myndir,“ segir Magnea.

 

Mikilvæg endurhæfing

Endurhæfing í Ljósinu hefur hjálpað Magneu mikið. Að lokinni háskammtameðferð þurfti hún nánast að læra að ganga upp á nýtt enda hafði hún þá verið rúmliggjandi í um mánuð og líkaminn mjög stirður.

Það er stutt í brosið og orkuna hjá Magneu

„Ég fékk æfingaprógramm hjá þjálfara þegar ég var nýbyrjuð að mæta í Ljósið og stundaði líka samhliða líkamsrækt í Hreyfingu þegar ég hafði öðlast meiri kraft. Eftir háskammtameðferðina var mjög erfitt að ganga upp nokkrar tröppur en í dag er það ekkert mál. Ég missti mjög hratt kraft og þol og það tók á að sætta sig við að þolið og þrekið væri á við mun eldri manneskju. En ég var í mjög góðu formi fyrir, sem varð til þess að ég var nokkuð fljót að ná fyrri krafti. Svo er ég bjartsýn að eðlisfari sem hefur mikið að segja upp á andlegt úthald. Nýjustu mælingar komu vel út og ég á ekki langt í land núna með að ná upp fyrra þoli að fullu,“ segir Magnea.

Hún hefur nú fengið staðfestingu á því að vera laus við krabbameinið en hún segir hluta af endurhæfingunni líka vera að vinna sig frá óttanum við að greinast aftur. Ég á enn eftir að átta mig á því held ég, að þessi barátta sé að baki og þá er líka bara að vera þakklátur fyrir pásuna ef maður skildi nú greinast aftur,“ segir Magnea.

 

Langaði að liggja í rúminu

Magnea var hraust í fyrri lyfjameðferð sinni og ákvað að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum, fara m.a. á Þjóðhátíð og ferðast til útlanda.

„Þolið og þrekið var ekki til staðar en ég er svo mikil félagsvera að ég einangraði mig alls ekki heldur fór miklu frekar að hitta fólk. Auðvitað komu dagar inn á milli þar sem mig langaði að liggja í rúminu og gera ekki neitt. Þá leyfði ég mér það til að líkaminn gæti hvílst en reyndi að halda hugarfarinu þannig að hausinn ynni á móti og kæmi mér fram úr,“ útskýrir Magnea.

 

Fær aftur eigið útlit

Talið berst að sjálfsmynd ungrar konu sem greinist með krabbamein. Magnea tók málin í eigin hendur og kaus að vera krúnurökuð strax og hún fór að missa hárið. Hún fagnar því að hárið er nú farið að vaxa aftur og hún er smám saman að öðlast eigið útlit aftur. Þá segir hún líkamsímyndina hafa breyst mikið í ferlinu og henni hafi í raun fundist líkaminn ekki tilheyra sér.

„Einna erfiðust er sú staðreynd að háskammtameðferð fylgja miklar líkur á ófrjósemi. Mig dreymir um að eignast barn í framtíðinni og fór í upphafi meðferðar í eggheimtu sem heppnaðist því miður ekki. En maður getur jú alveg eignast börn þó maður sé ófrjór, ég myndi ekki láta það stoppa mig,“ segir Magnea.

 

 

Mikilvægt að reyna að vera jákvæður

Þegar hún horfir til baka, segir Magnea að auk þess að líta á tímann sem dýrmætan skipti miklu máli að reyna að vera jákvæður og sækja sér þá hjálp sem í boði er. „Mig langar að taka fram að þrátt fyrir að vera í hópi þeirra yngstu til að nýta sér þjónustu Ljóssins þá gæti ég ekki verið þakklátari fyrir að hafa farið þangað strax,“ segir Magnea að lokum.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.