Aukin fjarheilbrigðisþjónusta hjá Ljósinu vegna Covid 19

Fjarheilbrigðisþjónusta nú í boði í Ljósinu.

Á undanförnum vikum hefur Ljósið innleitt nýja fjarheilbrigðisþjónustu í gegnum forritið Kara Connect. Kara Connect býður upp á sérhæfðan hugbúnað fyrir aðila sem fást við viðkvæmar persónuupplýsingar eins og til dæmis heilbrigðisstofnanir en forritið er vottað af landlækni og stenst kröfur persónuverndarlaga (GDPR).

Fyrirkomulagið er einfalt en krabbameinsgreindir og aðstandendur þeirra óska eftir fjarfundi á vefnum og fundurinn fer fram í gegnum tölvu. Eini búnaðurinn sem ljósberi þarf til að nýta fjarþjónustu Ljóssins er því tölva með hljóðnema og myndavél. Athugið að myndavél er þó ekki nauðsynleg.

„Þar sem við verðum að opna starfsemina í smáum skrefum þá er þetta góð leið til að fá samtal og stuðning frá fagfólki Ljóssins. Ennfremur er þetta góð leið fyrir þá sem eiga ekki heimangengt en vilja vera í sambandi og fá þannig leiðbeiningar í sinni endurhæfingu.“ segir Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins.

Smelltu hér til að óska eftir fjarfundi.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.