Ekki sitja bara og bíða

G. Haukur Guðmundsson, sjúkraþjálfari í Ljósinu

eftir G. Hauk Guðmundsson, sjúkraþjálfara í Ljósinu

Á tímum samkomubanns, sóttkvíar og einangrunar þá er auðvelt að láta tímann líða fyrir framan hina ýmsu skjái eða lesefni á pappírsformi. Það er eflaust eðlilegt í þessum kringumstæðum og hjálpar mörgum að stytta stundirnar, hvort sem við erum að spjalla við vini og vandamenn, horfa á myndbönd, lesa eitthvað eða spila tölvuleiki.

Margir virðast líka duglegir við að taka þátt í einhverjum heimaæfingum, sem er frábært og ég vona að allir sem eru mikið heima, hvort sem er um þessar mundir eða á öðrum tímum, taki upp þá venju að stunda æfingar heima hjá sér ef annarra kosta er ekki völ. Það sem mig langar að benda á í samhengi við mikla skjáveru og lestur er að því fylgir oft mikil og langvarandi kyrrseta, sem segir sig sjálft.

 

Æfingin dugar ekki ein og sér

Margir líta á æfingu eftir langa kyrrsetu sem uppbót fyrir kyrrsetuna en þrátt fyrir að æfing sé í sjálfu sér mjög gagnleg og megi að mínu mati ekki missa sín, þá dugar hún ein og sér ekki til að vinna gegn þeirri skaðsemi sem líkaminn verður fyrir þegar fólk situr við tímunum saman án þess að standa upp og hreyfa sig. Mörg snjallúr vita þetta og láta okkur vita þegar við höfum setið of lengi en margir halda enn að það skipti ekki máli ef maður er duglegur að æfa einhvern tíma yfir daginn.

Það er ljót og leiðinleg upptalning að taka fram alla þá sjúkdóma og kvilla sem maður getur ýtt undir hjá sér ef maður stundar of mikla kyrrsetu en alvarlegast í því samhengi eru auknir verkir, skerðing á lífsgæðum og almennar styttri lífshorfur.

 

Áhrif langvarandi kyrrsetu

Þrátt fyrir hollustu þjálfunar þá geta ávinningar af þjálfun, einir og sér, ekki bætt upp allan þann skaða sem verður vegna langvarandi kyrrsetu. Líkaminn okkar er allur háður því að við fáum reglulega hreyfingu, eflaust er ekki til sú fruma líkamans sem þarf ekki á því að halda að líkaminn hreyfi sig oft og reglulega yfir daginn. Þá dugar ekki að taka bara eina góða æfingu yfir daginn.

Hvað getum við gert? Lágmarkið ætti að vera að standa upp og hreyfa sig í a.m.k. tvær mínútur á hverja klukkustund sem maður situr. Ekki verra að taka fimm mínútna göngu á hverjar tvær klukkustundir sem maður hefur setið mikið og svo nýta frítíma eins og hádegishlé eða pásur til að hreyfa sig aðeins. Á þessum tímum óeðlilega mikillar inniveru, sem við erum að ganga í gegnum núna, þá má líka vera skapandi og gera nokkrar léttar æfingar reglulega á hvern hálftíma sem maður situr við. Athugið að lágmarkið sem er talið upp hér að ofan er ekki hámark og má gera mun meira ef fólk hefur kost á.

Það munar um hvert skref!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.