Fyrst og fremst þakklátur – Tómas Hallgrímsson fer yfir sögu sína og Ljóssins

Við fáum seint þakkað allan þann tíma og vinnu sem sjálfboðaliðar hafa lagt til Ljóssins undanfarin 15 ár. Stjórn Ljóssins er þar ekki undanskilin en þar hefur fólk lagt mikið af mörkum án þess að þiggja kaup fyrir – Við erum óendanlega þakklát fyrir þeirra framlag.

Við birtum hér viðtal sem María Ólafsdóttir tók við Tomma okkar, Tómas Hallgrímsson, sem lét af stjórnarstörfum á síðasta ári eftir að hafa unnið af ástríðu og eljusemi að starfssemi Ljóssins frá upphafi þess.

Tómas Hallgrímsson lét nýverið af störfum sem stjórnarformaður Ljóssins, en hann hefur setið í stjórn félagsins allt frá upphafi og verið stjórnarformaður hart nær tíu ár. Hann segir starfið fyrir Ljósið hafa verið einstaklega gefandi þó mikil elja og hark hafi einkennt reksturinn í gegnum árin. Ljóst er að eftirspurnin eftir þjónustu Ljóssins verði sífellt meiri og því fylgi krefjandi áskoranir.

Tómas Hallgrímsson, fráfarandi stjórnarformaður Ljóssins, ásamt sonardóttur sinni, Camillu Rut Styrmisdóttur.

„Þegar ég var starfandi sem útibússtjóri í Landsbankanum árið 2005 kom góð vinkona mín að máli við mig og spurði hvort ég væri ekki til í að starfa í stórn Ljóssins sem þá var nýstofnað. Hún hafði persónulega kynnst hugmyndafræði og starfi Ernu í gegnum krabbameinsmeðferð sína og ég ákvað að slá til. Ljósið fékk um þetta leyti aðstöðu í kjallaranum í Neskirkju þar sem haldið var úti einfaldri dagskrá. Ég man að eitt af mínu fyrstu verkefnum var að herja á bankann að útvega okkur notaðar tölvur og allra nauðsynlegustu húsgögn. Þetta var skemmtilegur tími og mikill hugur sem einkenndi Ernu og það einvala lið sem þá lagði grunninn að Ljósinu eins og við þekkjum það í dag.

Þekkjandi söguna er með ólíkindum hversu hröð uppbygging Ljóssins hefur verið, enda hefur reksturinn að langstærstum hluta verið kostaður af styrktaraðilum, þ.e. einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Það má því segja að hark eftir fjármagni hafi einkennt reksturinn allar götur síðan. Hið opinbera hóf þó að leggja okkur lið fljótlega eftir stofnun en framlag þess lengi vel var afar takmarkað. Við höfum átt dygga velgjörðaraðila sem stutt hefur starfssemina frá upphafi og ég held að það sé á engan hallað að nefna hlut Oddfellow reglunnar sérstaklega. Við höfum einnig verið afar heppin með starfsfólk og verktaka í gegnum tíðina og eins hefur fólk setið lengi í stjórn Ljóssins sem gjörþekkir reksturinn. Allt skiptir þetta máli við að láta reksturinn ganga upp,“ segir Tómas.

„AÐ MÍNU MATI VAR GÓÐUR TÍMAPUNKTUR AÐ STÍGA ÚT NÚ OG HLEYPA NÝJU FÓLKI AÐ MEÐ FERSKAR HUGMYNDIR. ÞAÐ ER VISSULEGA SKRÝTIN TILFINNING AÐ HÆTTA Í STJÓRN LJÓSSINS EFTIR 15 ÁRA SAMFELLT STARF EN HVER VEIT NEMA ÉG KOMI AFTUR,“ SEGIR TÓMAS Í LÉTTUM DÚR.

Þrátt fyrir útlit um annað ár eftir ár segir Tómas að Ljósið hafi í raun ávallt sýnt jákvæða rekstrarafkomu sem sé að þakka dugnaði og elju Ernu, stjórnar og starfsfólks. „Við höfum verið það lánsöm að geta aukið þjónustustigið samhliða aukinni eftirspurn og ráðið til okkar hæft starfsfólk. Við höfum þannig oft tekið djarfar ákvarðanir þó við höfum viljað hafa vaðið fyrir neðan okkur í rekstri félagsins. En ég hef alltaf sagt að ímynd Ljóssins er eitthvað sem við byggjum upp á löngum tíma og mikil ábyrgð er fólgin í að þiggja styrki hvort sem þeir eru frá hinu opinbera eða öðrum. Við höfum lagt áherslu á það að vinna vinnu okkar vel, vera með markvisst bókhald og skrásetja alla þá þjónustu sem við veitum. Þannig tryggjum við góða yfirsýn á stöðu Ljóssins á hverjum tíma,“ segir Tómas.

Tommi ásamt Ernu og Jóni við afhendingu lykilsins að Langholtsvegi 43

Starfsemi Ljóssins flutti í núverandi húsnæði árið 2007 sem ekki var sjálfgefið, því félagið var ekki fjárhagslega sterkt og allar íþyngjandi skuldbindingar á þeim tíma í raun óhugsandi. Tómas segir að það megi þakka persónulegu framlagi Björgólfs Guðmundssonar til verkefnisins að forsvarsmenn hafi þorað að taka það skref að flytja á Langholtsveginn. Það er einstakt fyrir Ljósið að fá að starfa í svo góðu íbúðahverfi sem Langholtshverfið er og aðgengi að húsinu er gott. Ekki skemmir heldur sá góði andi sem ríkir í húsinu sem á sér líflega fortíð. Húsið er Tómasi sérstak lega hjartfólgið því þar var rekið farsælt útibú Landsbankans um árabil.

„Við leigðum húsnæðið fyrstu árin en í kjölfar bankahrunsins hækkaði leigan fram úr öllu hófi. Eftir mikla þrautagöngu náðum við loks að kaupa húsið árið 2011 og var það ógleymanleg stund þegar ég og Jón Eiríksson afhentum Ernu lykilinn henni að óvörum. Þar kom helst til ómetanlegur styrkur kraftaverka kvennanna þriggja sem standa að söfnunarátakinu Á allra vörum, en sú söfnun skilaði Ljósinu 39 milljónum árið 2010 sem var ríflega helmingur af kaupverðinu. Eftir að við keyptum húsið gátum við fyrst farið að móta það í samræmi við þjónustuna og fjárhagslega getu og styrkti það strax starfsemina. Það var þó snemma ljóst að vegna sívaxandi fjölda Ljósbera í þjónustu hjá okkur var farið að þrengja verulega að starfseminni í húsinu og það var þá sem að Oddfellowreglan bjargaði okkur og kostaði nýja viðbyggingu við húsið sem gjörbreytti aðstöðu okkar. Við fáum Oddfellow fullþakkað fyrir þá rausnarlegu gjöf,“ segir Tómas.

Tómas segir alla þá sem staðið hafa að rekstri og þjónustu Ljóssins geti verið afar stolt. „Við höfum ávallt lagt áherslu á það að ráða til okkar faglega lært starfsfólk sem og bjóða upp á fjölbreytta þjónustu. Á hverju hausti hefur Erna sest niður með starfsfólki sínu og sett upp vandaða stundaskrá þar sem miðað er að því að mæta þörfum þeirra sem sækja til okkar þjónustu. Við höfum verið óhrædd að gera breytingar á milli ára og starfsemin er í sífelldri endurskoðun ár frá ári. Á hverju ári greinast um 1.500 manns með krabbamein hér á landi og er hlutfall kvenna og karla þar nokkuð svipað. Það var hins vegar lengi vel þannig að konur voru í miklum meirihluta þeirra sem sóttu styrk í Ljósið og okkur gekk erfiðlega að ná til karlmanna. Fyrir allmörgum árum gerðum við gangskör í því að fjölga karlmönnum og byrjuðum með námskeið sérsniðin fyrir þá. Þeim var fljótlega vel tekið og í dag eru karlar um 30% Ljósbera. Við lítum á Ljósið sem vin í veikindum þar sem fólk getur sótt faglega einstaklingsmiðaða þjónustu á sama tíma og við bjóðum létta kaffihúsastemningu að ógleymdum hádegismatnum sem nýtur gífurlegra vinsælda“.

Tommi í góðum hópi á toppi Esjunnar í nafni Ljóssins

Tómas segir stöðu Ljóssins sterka í dag og bjarta tíma framundan. Engu að síður er starfið vandasamt þar sem mæta þurfi aukinni eftirspurn ár eftir ár, enda hefur Ljósið verið fánaberi í endurhæfingu krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra frá stofnun. Hann segir einnig að sú ákvörðun sem stjórnvöld kynntu nýverið um að leggja Ljósinu til aukið fjármagn sé löngu tímabær og muni styrkja starfsemina enn frekar. Það er því miður gríðarleg þörf eftir þeirri þjónustu sem Ljósið veitir og kraftaverkasögunar sem við þekkjum úr starfseminni eru óteljandi. Það er því mikilvægt að Ljósinu séu tryggð viðunandi rekstrarskilyrði til framtíðar.

„Eins og margir vita eigum við lóðina að Langholtsvegi 47 og vonir standa til þess að fljótlega verði tekið í gagnið nýtt húsnæði sem við höfum þegar keypt og fengið stöðuleyfi fyrir. Miðað við vöxt undafarinna ára leyfir hann sér að efast að sú lausn verði til frambúðar þar sem reksturinn hafi sprengt allt húsnæði utan af sér hingað til“.

„Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka öllu því kraftaverkafólki sem ég hef kynnst í Ljósinu, bæði Ljósberum, starfsfólki og stjórnarmönnum fyrir þeirra framlag til Ljóssins og skemmtilega viðkynningu. Ég vil einnig þakka öllum þeim sem stutt hafa við starfsemina á undangengnum árum því án þeirra framlags væri Ljósið sannarlega ekki á þeim góða stað sem það er nú. Ernu minni vil ég færa sérstakar kveðjur, en án hennar væri Ljósið ekki til. Erna hefur gefið þessu hugsjónarstarfi sínu líf sitt og hún er vakin og sofin yfir velferð Ljóssins og Ljósberanna. Ég hvet alla sem greinst hafa með krabbamein að kynna sér starfsemi Ljóssins, koma í heimsókn og nýta sér þá þjónustu sem þar er veitt“.

Þessi grein birtist í árlegu tímariti Ljóssins 2019 – Höfundur greinarinnar er María Ólafsdóttir. 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.