Jólaóróar Póstsins seldir til styrktar Ljósinu í ár

Allur ágóði af sölu Jólaprýði Póstsins, jólaóróum úr smiðju íslenskra hönnuða, mun renna til Ljóssins nú í desember.

„Starfsfólk Póstsins fékk að velja hvert ágóðinn af sölu jólaóróanna færi. Ljósið var þeim hjartafólgið fyrir hátíðarnar enda hefur miðstöðin unnið gríðarlega gott starf og það er okkur ljúft að geta stutt við bakið á þessari einstöku stofnun“ segir Ósk Heiða Sveinsdóttir, markaðsstjóri Póstsins.

Jólaprýði Póstsins hefur verið framleidd síðan árið 2006 og hafa íslenskir listamenn fengið frjálsar hendur við hönnunina, þar á meðal Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Hlynur Ólafsson, Örn Smári Gíslason, Heiðar J. Hafsteinsson, Konráð K. Þormar og Sveinbjörg Hallgrímsdóttir. Nú er komið að lokum framleiðslu óróanna og því kjörið tækifæri fyrir þá sem hafa safnað skrautinu að nálgast það sem upp á vantar og styrkja málefnið í leiðinni.

Jólaóróarnir fást í helstu pósthúsum landsins og kosta 950 krónur. 

„Jólaprýði Póstsins hefur verið órjúfanlegur hluti af jólahefðinni hjá mörgum enda um einstaka íslenska hönnun að ræða. Við í Ljósinu erum ótrúlega þakklát Póstinum fyrir að leyfa okkur njóta góðs af sölunni nú þegar komið er að leiðarlokum í framleiðslu þeirra. “ segir Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins.

 

Jólaprýðin eru skemmtileg hönnun sem sómar sér vel á jólatrjám eða sem pakkaskraut.

Elvar, sölustjóri Póstsins og Solla, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins smelltu af mynd við afhendingu þeirra eintaka sem verða til sölu í Ljósinu fram að jólum.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.