Ekkert bull, bara ull, góðir skór og næg lýsing! Þórunn Egilsdóttir og félagar fengu Fjallakofa-fræðslu fyrir Ljósafoss

Flottur hópur sem ætlar að taka þátt í að mynda Ljósafoss niður Esjuhlíðar hittist í Fjallakofanum og ræddi um hverju ber að huga að.

Nú styttist óðfluga í Ljósafossinn okkar árlega og það veitir okkur mikla gleði að sjá hversu margir eru að stefna að því að lýsa upp myrkrið í Esjunni með okkur.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður og alþingiskona, hefur að undanförnu sótt þjónustu til okkar í Ljósið og þegar umræðan um árlegu vetrargönguna okkar á Esjuna bar á góma var hún ekki lengi að ákveða að hún ætlaði að taka þátt. En það var ekki nóg að hún sjálf ætlaði að mæta heldur ákvað hún að fá sem flesta félaga sína úr stjórnmálunum með sér ef þeir ættu lausa stund. Nú stefnir allt í að Þórunn verði með flottan hóp með sér.

Eins og alltaf leggjum við mikla áherslu á að þeir Ljósberar sem ætla í gönguna, og allir aðrir, séu með sem mesta þekkingu á aðstæðu í fjöllum og að því tilefni tóku vinir okkar í Fjallakofanum á móti Þórunni, Sigurði Inga Jóhannssyni og Ingveldi Sæmundsdóttur til þess að fara yfir nokkur mikilvæg atriði fyrir Esjugöngu að vetri.

Ull, skór og næg lýsing!

Halldór Hreinsson tók á móti hópnum og fór víða en byrjaði þó þar sem sem væri ekkert bull: Ull, skór og skær lýsing! „Ég nota ullina 365 daga á ári, líka á jólunum en þá finnið þið hana bara undir spariskyrtunni“ sagði Halldór hópnum. En auk ullarinnar skiptir máli að vera lagskiptum klæðnaði í réttum litum; „litaval skiptir einnig miklu því við viljum sjást í hlíðunum og það er frábært að vita til þess að það sést til manns langar leiðir eða að maður geti séð til göngufélaganna ef maður er kominn í bílinn á undan þeim.“

Það þarf að huga að mörgu áður en haldið er í göngu og skipta skór miklu máli samkvæmt Halldóri Hreinssyni hjá Fjallakofanum.

Skór skipta einnig miklu máli en maður þarf að vera með á hreinu hvernig göngur maður ætlar í samkvæmt Halldóri. Góðir sólar, stuðningur við ökkla, þyngd og ýmsilegt annað skiptir máli en umfram allt þurfa skór að passa og því þarf maður að geta mátað og aðeins fundið sig í þeim.

En hvað með ljósið?

Í Ljósafossinum okkar á laugardag skiptir lýsingin auðvitað höfuðmáli! Höfuðljós er sú lýsing sem flestir velja í Ljósafossinn niður Esjuhlíðar og þá þarf fólk að velta fyrir sér hversu mörg lumen ljósið býður upp á. „25-50 lumen er lítil birta en þegar maður er kominn upp í 250 lumen þá fer maður að laða að sér alla hina, því þeir vilja vera í birtunni sem berst svo vel. Munurinn er smá eins og að vera á gömlum bíl með smá ljóstýru við hliðina á glænýjum bíl með led-peru!“.

Halldór ræddi einnig hvernig göngustafir geta nýst í göngum eins og Ljósafossi niður Esjuhlíðar en einnig hvernig margir nota þá á jafnsléttu „hreyfingin sem maður fær í stafgöngu er virkilega góð fyrir líkamann, byggir mann alveg upp og styrkir kjarnann“ segir hann. Hópurinn hafði allur reynslu af því að eiga stafi en höfðu þó mismikla reynslu af því nota þá en Sigurður Ingi tilkynnti hópnum að hann væri ekki nægilega duglegur að nota sína stafi. Við erum þó viss um að við eigum eftir að sjá hann í brekkunni á laugardaginn með sína stafi.

Í lokin ræddum við við Þórunni um hvernig laugardagurinn væri að leggjast í Þórunni og hvort hún ætlaði að reyna að komast alla leið upp að steini. „Ég er vön útivist og göngum á Esjuna að vetri. Á gamlársdag kláraði ég til dæmis alltaf vaktina í Útilíf í den og hentist á Esjuna með félögum en núna ætla ég sjá hversu langt ég fer. Svo er ég með það planað að fara aftur fljótlega með vinkonu.“

Halldór ræðir við hópinn um hvað ber að hafa í huga.

Við þökkum Fjallakofanum, Þórunni og félögum hennar fyrir skemmtilega stund og vonum að þau séu enn betur að sér í fjallamennskunni eftir heimsóknina.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.