„Aðstandendur upplifðu það að fá úrlausnir“

Nú á vordögum kláraði Helga Jóna, iðjuþjálfi í Ljósinu, meistaragráðu í Fjölskyldumeðferð.  Við fengum Helgu Jónu til að setjast niður í smá stund og segja okkur frá náminu og lokaverkefninu.

Geturðu sagt mér aðeins frá náminu?
Ég útskrifaðist úr fjölskyldumeðferðarnámi í júní 2016, (90 ECTS diplómanám á meistarastigi) frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Það nám fékk ég svo metið inn á félagsvísindasvið/félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands til að skrifa 30 ECTS Meistararitgerð.
Þeir sem hafa útskrifast úr fjölskyldumeðferðarnáminu eru með starfsheitið í dag fjölskyldufræðingar.

Afhverju fjölskyldumeðferð?
Fjölskyldumeðferð er skilgreind sem meðferð þar sem tekið er mið af fjölskyldunni sem heild og velferð hennar hafð að leiðarljósi. Fjölskyldumeðferð er fjölbreytt úrræði sem getur unnið með einstakling innan fjölskyldu, hjón/pör, börn eða fjölskylduna í heild sinni eða að hluta. Fjölskyldan er grunneining samfélagsins og hentar því fjölskyldumeðferð þeim sem vilja bæta samskipti sín og tengsl. Fjölskyldumeðferð er gagnreynt og árangursríkt meðferðarúrræði þegar t.d. líkamleg og andleg veikindi eiga sér stað, við áföllum af ýmsum toga, sorgarferli, barnauppeldi, ágreining af ýmsu tagi og breytt fjölskyldumynstur í kjölfar skilnaðar.

Um hvað skrifaðir þú?
Meistaraverkefnið mitt fjallaði um upplifun og reynslu aðstandenda þeirra sem hafa greinst með krabbamein af þjónustu Ljóssins.
Ég tók viðtal við 6 maka, yngri en 45 ára, með börn á heimilinu. Ástæðan fyrir þessu vali á viðmælendum var að tryggja að viðmælendur og aðrir fjölskyldumeðlimir hefðu nýtt sér fjölbreyttan aðstandendastuðning sem hefur verið í boði hér í Ljósinu, s.s. aðstandendaviðtöl, aðstandendanámskeið bæði fyrir börn og fullorðna, para og hjónanámskeið og fagstýrða jafningjahópa.

Hvað var það sem kom þér mest á óvart í skrifunum?
Hvernig endurhæfing og fagleg þjónusta fyrir alla fjölskylduna eins og í Ljósinu, þar sem þjónustan er í boði á einum stað, hefur mikil og jákvæð áhrif á bætt lífsgæði fyrir fjölskylduna í heild.

Hverjar voru helstu niðurstöður verkefnisins?
Aðstandendur upplifðu Ljósið sem þarft úrræði fyrir fjölskylduna í heild. Það að geta tekið þátt í veikindaferlinu með að sækja þjónustu og fá stuðning á einum stað fyrir alla fjölskylduna var þeim mikilvægur. Einnig var jákvætt að upplifa að kostnaður við þjónustuna í Ljósinu væri haldið í lágmarki fyrir þjónustuþega. Þeir upplifðu traust, faglegheit og gott viðmót í Ljósinu. Að fá fræðslu og sálfélagslegan stuðning frá fagaðilum, í formi viðtala og námskeiða, reyndist fjölskyldunni hjálplegur og gagnlegur fyrir skilning á líðan sinni, maka sinna og barnanna. Aðstandendur upplifðu það að fá úrlausnir og leiðir að bjargráðum ýtti undir jákvæðari og opnari samskiptahegðun og aukna færni til aðlögunar bæði í hjónabandinu og hjá fjölskyldunni. Enn fremur upplifðu aðstandendur að þjónustan drægi úr álagi og tilfinningalegri streitu. Fagstýrður jafningjastuðningur reyndist aðstandendum vel. Þar gafst tækifæri til að eiga samtal um sameiginlega krefjandi reynslu, líðan, samskiptin á heimilinu, börnin og raun veikindanna. Aðstandendur upplifðu að endurhæfing og stuðningurinn, sem makar þeirra fengu, jók bæði líkamlega og andlega vellíðan þeirra og bættu því lífsgæðin þeirra. Það að maka leið vel jók vellíðan aðstandenda. Aðstandendur höfðu jákvæða upplifun af þeirri íhlutun og jafningjastuðningi sem börn þeirra fengu. Hún styrkti sjálfsmynd barnanna, jók vellíðan þeirra og gaf þeim betri skilning á hlutverki sínu. Á heildina litið upplifðu aðstandendur aukin lífsgæði hjá fjölskyldunni í heild af þjónustu Ljóssins.

Mun það nýtast inn í starf þitt í Ljósinu?
Já algjörlega. Mikilvægt er fyrir þjónustuúrræðið að rannsaka gagnsemi hennar og vita það að starfsemin er byggð á áhrifaríkum aðferðum.
Ég tel að það sé þarft fyrir fjölskylduna að eiga kost á fjölskylduviðtali þegar fjölskyldumeðlimur greinist með lífsógnandi sjúkdóm. Áhrif veikindanna getur verið mikil og jafnframt mismunandi fyrir hvern og einn í kringum þann krabbameinsgreinda. Enn fremur er mikil óvissa sem fylgir veikindum og því gott að geta sest saman niður og átt góða umræðu um þá þætti sem því fylgja. Það bæði getur dregið úr ótta og bætt samskipti og tengsl.

Hvað var það fyrsta sem þú gerðir eftir að þú skilaðir ritgerðinni?
Sagði við sjálfa mig YES og gekk skælbrosandi út úr skólanum. Hringdi í manninn minn og mömmu. Kláraði vinnudaginn og skálaði við góða vini um kvöldið.

Við óskum Helgu Jónu innilega til hamingju með áfangann!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.