Föstudagsfræðslan í mars

Næstu fyrirlesarar í Föstudagsfræðslunni okkar verða virkilega áhugaverðir.

1. mars ætlar Ingrid Kuhlman, þjálfari, ráðgjafi og MSc í jákvæðri hagnýtri sálfræði að segja okkur frá þremur leiðum til að ná sér í yngri maka. Eða hvað? Mögulega er hún að plata okkur með smá húmor en fyrirlesturinn einblínir einmitt á hvernig húmer getur losað um spennu og létt andrúmsloftið, hann dregur úr streitu og eykur sköpunargleði og námsgetu. Hún mun einnig fjalla um hvernig hlátur stuðlar að losun endorfíns í heilanum, sem er vellíðanarhormón. Húmor hefur einnig lækningamátt, eykur brennslu og hefur yngjandi áhrif. Til eru mismunandi tegundir af húmor, eins og t.d. hörmungahúmor, gálgahúmor og yfirlætishúmor. Í fyrirlestrinum verður á gamansaman hátt fjallað um húmor í hinum ýmsu myndum. Það er sannarlega ástæða til að brosa og mæta á þennan fyrirlestur hennar Ingridar.

8. mars mun Hrefna Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur fjalla um breytingar á eigin líðan í lyfja, geislameðferð eða eftir skurðaðgerðir Hrefna hefur um langt skeið unnið á 11 B og er hafsjór af fróðleik þegar kemur að einkennum og líðan í meðferðum og eftir meðferðir – af hverju líður mér svona, hvað er til ráða?

15. mars mun Helgi Sigurðson fjalla um ímyndir krabbameina
Helgi er prófessor í krabbameinslækningum. Hann mun ræða hvort það sé mýta í kringum krabbamein og greiningu, og hvað gerist í líkamanum við það að fá krabbamein. Þetta er mikilvæg fræðsla um krabbmein og lífsstíl.

22. mars ætlar Hrefna Guðmundsdóttir, MA í félagsfræði og fyrrv.formaður Félags um jákvæða sálfræði, að koma með enn meira innlegg í umræðuna um hvernig hægt er að nýta jákvæða sálfræði í ferlinu. Hrefna hefur ávallt verið áhugasöm um hvað ákvarðar hamingjuna. Hún skrifaði BA-ritgerð sína í sálfræði um Íslendinga og hamingjuna. „Þegar við erum í jákvæðu hugarástandi, hugsum við öðruvísi. Þá sjáum við frekar heildarmyndina. Þá hugsum við í lausnum frekar en vandamálum, erum leiknari í samskiptum og meira skapandi.“

Föstudagsfræðslan er nýtt fræðslufyrirkomulag sem sniðið er fyrir fólk á aldrinum 20-45 ára sem greinst hefur með krabbamein. Með því að bjóða upp á opna fyrirlestra er ætlunin að bjóða unga fólkinu sveigjanleika samhliða öðrum verkefnum.

Við hlökkum til að sjá ykkur í mars!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.