Aðventukvöld Ljóssins

Aðventukvöld Ljóssins fór fram í gærkvöldi, miðvikudaginn 29. nóvember.  Svo mikil tilhlökkun var fyrir kvöldinu að fyrstu gestir voru mættir vel fyrir auglýstan tíma. En, þar sem allt var tilbúið og jólabragur komin á heimilið var þeim að sjálfsögðu boðið til sætis. Það er skemmst frá því að segja að fullt var út úr dyrum og rúmlega 150 manns í sæti þegar mest var. Gestir gæddu sér á heimabökuðum smákökum, heitu súkkulaði, mandarínum og konfekti. Dagskrá kvöldsins var fjölbreytt og meðal annars hlýddu gestir á dásamlega söngva; Annars vegar frá Birgi Stein og Andra Þór sem spiluðu og sungu nokkur jólalög og hinsvegar frá þeim systrum Soffíu og Guðrúnu Árnýju Karlsdætrum. Einnig las Óskar Guðmundsson upp úr bók sinni Hilma, en hún var valin besta glæpasaga ársins 2015 og ný bók væntanleg innan tíðar. Við þökkum öllu þessa góða fólki innilega fyrir komuna og hjálpina við að gera kvöldið svona ljúft.

Að venju var smá jólasala á ýmsu handverki og öðrum varningi þar sem allur ágóði rennur beint í starfsemi Ljóssins. Meðal þess sem finna mátti voru ýmsir munir framleiddir af Ljósberum eins og; skartgripir, leirmunir, heklað og hnýtt skraut ásamt góðum gjöfum frá fjölda listamanna og öðrum fyrirtækjum sem lögðu sitt á vogarskálarnar til að styrkja starfsemi Ljóssins, ykkur sendum við okkar bestu þakkir. Margir gerðu góð kaup og óhætt að segja að jólaandinn hafi svifið yfir vötnum. Dásamlegt kvöld í alla staði og við þökkum öllum fyrir komuna og þeim sem lögðu hönd á plóg með einum eða öðrum hætti innilega fyrir stuðninginn.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.