Eftir Guðrúnu Friðriksdóttur iðjuþjálfa

 

Guðrún Friðriksdóttir

Vegna þess að við erum ólíkir einstaklingar þá henta okkur mismunandi leiðir til vellíðunar. Ef eitthvað hvílir á þér hentar þér kannski að tala og skýra hugsunina upphátt. Öðrum hentar betur að skrifa. Blanda af hvoru tveggja getur líka verið góð hugmynd, ef það hentar þér. En einhver útrás, hvort sem hún er skrifleg eða munnleg, er nauðsynleg fyrir allt það sem brýst um innra með þér.

 

Rannsóknir sýna …

Fjölmargir háskólar, fræðimenn og samtök hafa skoðað samband vellíðunar og skrifta. Með rannsóknum hafa þeir sýnt fram á ýmis konar ávinning af því að skrifa. Skriftir geti leyst úr tilfinningaflækjum, minnkað einkenni astma og gigtar, verið geðhreinsun, létt á krónískri streitu og bætt líkamlega heilsu almennt. Að skrifa getur hjálpað okkur að hugsa. Skriftir geta skapað fjarlægð og auðveldað okkur að sjá hlutina frá ólíkum sjónarhólum. Þá verður það auðveldara að bera kennsl á einstakar hugsanir með því að skrifa um þær. Hvaða þræðir eru það sem mynda hugsanaflækjurnar? Hvað þarf til að leysa þær?

 

Hvernig?

Eins og með svo margt þá er ekki til ein rétt leið til að skrifa. Sumum reynist auðvelt að fara af stað, skrifa reglulega í dagbók eða á samfélagsmiðla, senda tölvupósta eða eru virkir í athugasemdum. Aðrir vilja ekki skrifa. Sannfærðir um að það muni ekki virka, finnst skriftin sín ljót, lengi að pikka á lyklaborð, of margar stafsetningarvillur eða finnst þeir hreinlega ekki hafa neitt að segja.

En ég hvet þig til að prófa.

Það er enginn að fara að gefa þér einkunn. Það þarf enginn nokkurn tímann að sjá það sem þú skrifar. Það mun enginn fara yfir textann og merkja við villur eða setja útá setningaskipan.

Þú ert að skrifa fyrir þig og bara fyrir þig.

 

Hvað?

Og hvað áttu að skrifa? Það besta er að þú getur skrifað um hvað sem er. Þú getur skrifað um það sem gleður þig, hræðir, kætir, kvelur, fyllir þig sorg, hamingju, kvíða eða eirðarleysi. Þú getur skrifað um fortíðina, nútíðina eða framtíðina, hvernig þú vilt að eitthvað hefði verið, væri eða verður. Þú getur skrifað margar blaðsíður, nokkrar línur eða eitthvað þrennt. Rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á gagnsemi þess að skrifa hjá þér þrennt sem fyllir þig þakklæti til að bæta líkamlega og andlega heilsu.

Þú getur skrifað það sem þú vilt að aðrir segi við þig eða það sem þú vilt segja við aðra. Hvað með að skrifa niður það sem þér finnst þú þurfa, andlega, líkamlega eða félagslega? Þú getur líka skrifað um það sem þú heldur að myndi gera lífið betra eða það sem þér finnst þú hafa stjórn á.

 

Prufaðu að skrifa. Þú tapar engu á að prufa. Það sakar ekki að láta vaða og hver veit, það gæti hjálpað og aukið vellíðan. Biddu um hjálp ef þú þarft hana. Fáðu einhvern með þér í að skrifa. Búðu til hóp og googlaðu efni sem er hægt að skrifa um eða vertu í einrúmi og leitaðu inná við.

Um hvað vilt þú skrifa?

Prófaðu bara að byrja.

Skrifaðu.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.