Af hverju slökun?

eftir Margréti Örnu

Öllum er nauðsynlegt að slaka á daglega. Ég tala nú ekki um á tímum hraða, streitu og stressi þar sem kröfurnar eru svo miklar að standa sig á öllum sviðum. Það þarf ekki langan tíma og 10 mínútur geta endurnært þig á sál og líkama.

Slökun er tækni sem gerir þér kleift að róa hugann, slaka á vöðvum líkamans og draga þannig úr kvíða og spennu. Slökun ætti að vera hluti af daglegu lífi, daglegum venjum á sama hátt og að hreyfa sig. Mikilvægt er að taka frá tíma fyrir slökun og virða þann tíma. Með slökun má halda spennu í skefjum og þannig ert þú betur í stakk búin til að takast á við viðfangsefni daglegs lífs.

Það sem slökun gerir fyrir þig er að vinda ofan af líkamanum, slaka á huganum og auka almenna vellíðan. Slökun slekkur á streituviðbrögðum og í stað þess að brjóta sig niður fer líkaminn í að heila sig og gera við. Slökun endurhleður einnig taugakerfið. Ef þú ert með útþanið taugakerfi þá getur þú lent í vítahring spennu. Slíkur vítahringur getur haft þau áhrif að þú eigir erfitt með svefn þrátt fyrir að vera jafnvel örmagna af þreytu. Þetta ástand getur síðan haft enn alvarlegri fylgikvilla eins og kulnun og aðra sjúkdóma.

Slökun er því mikilvæg til að læra að hvílast, vinna á móti svefnleysi, kvíða, áhyggjum, verkjum og ýmis konar streitu.

Þú upplifir:
-Minni spennu og kvíða
-Aukið jafnvægi og það eru færri hlutir sem valda þér spennu
-Aukna einbeitingu og betri heilsu
-Hvíld, frið og endurnæringu
-Aukna orku og minni þreytu
-Aukna vellíðan og bætt lífsgæði

Með slökun eflir þú jákvæða þætti í fari þínu, kemur þér undan neikvæðu hugsunarferli og þú blómstrar.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.