Ljósafossgangan

Ljósafossgangan árið 2017 verður farin laugardaginn 2. desember nk.  Mæting er um kl. 15 við Esjustofu og lagt verður af stað upp fjallið kl. 15:30 en áætlað að koma niður um kl. 18. Að venju er það göngugarpurinn Þorsteinn Jakobsson, oft nefndur fjalla-Steini, sem stýrir göngunni.

Við hvetjum alla til að vera með í göngunni, mæta með ljós og taka þátt í að búa til Ljósafossinn á leið niður fjallið.  Gönguhópar eru sérstaklega velkomnir. Þeir sem treysta sér ekki upp allt fjallið geta gengið áleiðis, eða eins og þeir treysta sér til og verið samferða hópnum niður. Jafnframt vekjum við athygli á því að í tilefni Ljósafossgöngunnar verður tilboð á ýmsum veitingum í Esjustofu.

Björgunarsveitin Kjölur verður á staðnum, en eftir stífar samningaviðræður við veðurguði er útlit fyrir gott veður þennan dag. Við mælum þó með góðum hlífðarfatnaði og mannbroddum ef hálka eða snjór verður í fjallinu og gott getur verið að styðja sig við göngustafi.

Markmiðið með göngunni er að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem fram fer í Ljósinu og eru allir velunnarar hvattir til að taka daginn frá til að taka þátt.

Hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.