Allt um Ljósið og Reykjavíkurmaraþon

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum að Reykjavíkurmaraþon fer fram á laugardaginn kemur, þann 18. ágúst. Rétt tæplega 300 manns eru nú skráðir sem hlauparar fyrir Ljósið. Það verður að segjast að við erum hrærð yfir þessum mikla stuðningi og velvilja og erum innilega þakklátt öllum þeim sem hlaupa, styrkja með áheitum, verða í klappliðinu eða styðja við fólkið okkar með öðrum hætti.

Pastaveisla og merktur Ljósabolur
Líkt og undanfarin ár bjóðum við hlaupurum okkar að koma til okkar í pastaveislu og fróðlegan fyrirlestur frá reyndum hlaupara og fá um leið afhentan bol merktan Ljósinu til að hlaupa í. Þessi veisla fer nú fram fimmtudaginn 16. ágúst kl. 17 í Ljósinu við Langholtsveg 43. Gunnar Páll Jóakimsson margverðlaunaður hlaupari heldur fyrirlesturinn og eflaust fáum við að heyra ýmislegt fróðlegt sem getur nýst okkur í eða fyrir hlaupið.
Þeir sem komast ekki til okkar á fimmtudaginn til að sækja sér bol þurfa samt ekki að örvænta því við verðum líka með bás á skráningarhátíðinni í Laugardalshöllinni og við hvetjum hlauparana okkar til að koma þar við og sækja sér bol.

Skráningarhátíðin er opin:
Fimmtudaginn 16. ágúst kl. 15-20
Föstudaginn 17. ágúst kl. 14-19

Hvatningastöðin okkar við JL húsið
Eins og sl. 12 ár verður Ljósið með hvatningarstöð fyrir neðan JL húsið við enda Hringbrautar. Þangað mætum við eldsnemma með kaffi, kakó og með‘í, – blöðrur, gleði, hamingju og bros og hlökkum svo sannarlega til að sjá sem flesta stuðningsaðila koma og hvetja hlauparana okkar áfram. Við veðum mætt snemma. Ræst verður í hálfmaraþon kl. 8:30 og til að ná að hvetja sem flesta hlaupara gæti verið gott að mæta um kl. 9:30 en athugið að víða verða götur lokaðar á milli kl. 7-13, eins og sjá má á þessu korti.

Í lok hlaupsins – endastöð
Við í Ljósinu verðum líka með endastöð eins og síðustu ár og það væri einstaklega gaman ef þið gæfuð ykkur örfáar mínútur til að kíkja þangað til okkar þegar þið verðið búin að hlaupa. Þar verðum við með smá orkubita, bros og myndavél og langar að fá að fagna með ykkur. Endastöðin verður við styttuna ,,Friðrik Friðriksson“ nær sjónum frá MR.

Í hvað fer það sem safnast?
Í fyrra söfnuðust rúmlega 9 miljónir sem runnu óskiptar í starfsemina okkar. Sem dæmi þá var strax felld niður gjaldtaka á hreyfingu í húsnæði Ljóssins og námskeiðsgjald í handverki. Það hefur því glatt okkur allt árið, eða frá síðasta hlaupi, að segja Ljósberum okkar að þeir geti nýtt sér alla þá hreifingu sem boðið er uppá hér í húsinu sér að kostnaðarlausu. Hér er um að ræða jóga, stoðfimi, tækjatíma ýmiskonar, notkun á tækjasal, göngur og útivist. Og eins og áður sagði var námskeiðsgjald í handverki einnig fellt niður sem gert hefur mörgum kleift að prófa eitthvað nýtt og finna sér jafnvel nýja fjöl í lífinu.

Það verður því afar spennandi að sjá hve mikið safnast í ár og vonandi getum við haldið áfram á sömu braut.

Við þökkum ykkur öllum innilega fyrir stuðningin

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.