Önnur leið að bjartri framtíð

Kristján, Andri og Anna voru glöð í bragði þegar þau litu við í Ljósinu

Anna Guðmundsdóttir og Kristján Ingi Óskarsson fögnuðu nýlega fimmtugsafmælum sínum með vinum og vandamönnum. Á þessum miklu tímamótum vildu þau þakka fyrir það góða viðmót og þjónustu sem sonur þeirra, Andri Fannar, hefur fengið í Ljósinu. Þau ákváðu því að afþakka allar gjafir en í staðinn hvetja gesti sína til að gefa til Ljóssins. Úr varð veglegur styrkur sem hefur nú verið afhentur í starf ungra karlmanna í Ljósinu.

 

Fjölskyldan var mikilvægasti stuðningurinn

Saga Andra er með örlítið öðru móti en flestra ungra manna á hans aldri. Aðeins 14 ára gamall greindist Andri með krabbamein í lærlegg og hafa undanfarin fjögur ár farið í meðferðir, aðgerðir og að byggja upp heilsuna að nýju í bland við allt það helsta sem þessi mikilvægu ár fela í sér, eins og klára menntaskóla, sinna áhugamálum og horfa til framtíðar.

Fyrsta veturinn eftir greiningu varði Andri miklum tíma inn á Landspítala. Aðspurður um hvernig stuðning ungur maður leitar að þegar maður er rétt að klára 9. bekk segir hann fjölskylduna hafa verið mikilvægasta stuðningsaðilann; „Ég sótti hvað mestan stuðning til fjölskyldunnar í gegnum ferlið. Það má segja að ég hafi misst smá samband við vini mína á meðan meðferðartímanum stóð en þau tengsl eru aftur orðin sterk. Í mínu ferli hef ég sótt samveru þangað sem ég hef átt eitthvað sameiginlegt en ekki endilega krabbamein“.

 

Samstarf Ljóssins, Barnaspítalans og SKB var leiðin

Andri stefnir á hugbúnaðarverkfræði í haust

Leið Andra í þjónustu Ljóssins lá í gegnum samstarf Barnaspítalans, Ljóssins og Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna sem var þá nýtilkomið. Eftir fyrstu meðferð byrjaði Andri að venja komur sínar í mælingar í Ljósið en mikilvægt er að fylgjast vel með þoli og vöðvamassa þegar verið er að byggja sig upp eftir krabbameinsmeðferðir. „Ég byrjaði að koma í Ljósið í mælingar en var í þjálfun í Styrk sjúkraþjálfun samhliða en það er í raun eins og einkaþjálfun. Haukur sjúkraþjálfari í Ljósinu hefur tekið á móti mér frá upphafi en ég kem núna alltaf á þriggja mánaða fresti til að meta mig. Það hefur skipt miklu máli að fylgjast vel með og Haukur hefur verið alveg frábær“.

 

Hindrun sem varð að tækifæri

Andri ræddi að auki við iðjuþjálfa í Ljósinu um daglegt líf, áhugamálin, skólann og fleira. Krabbameinið hafði áhrif á skólasetu í 10. bekk sem gerði það að verkum að Andri breytti vali sínu á menntaskóla.  „Ég er í raun mjög sáttur í dag að krabbameinið hafi gert það að verkum að ég ákvað að fara á Tækni- og vísindabraut Tækniskólans. Það hefur opnað augun fyrir tækifærum sem ég held að fyrra val hefði ekki gert“ segir Andri glaður í bragði og bætir við. „Brautin sem ég fór á var stúdentsbraut og haldið var utan um okkur sem bekk en á sama tíma fékk ég tækifæri til að velja virkilega spennandi valfög, bæði sem tengjast tölvum og öðru. Ég tók til dæmis í vali flugnám, þar á meðal einn áfanga í flugveðurfræði sem var mjög skemmtilegur.“ Það hentaði Andra vel að geta bætt þessu við sig en hann er að læra einkaflugmanninn og á bara örfáa flugtíma eftir til að fá einkaflugmannsréttindi.

Andri er greinilega fullur af metnaði en í sumar vinnur hann við heimasíðugerð og stefnir á hugbúnaðarverkfræði í haust.

Anna og Kristján eru sannfærð um að jákvæðni Andra hafi skipt sköpum í öllu hans ferli en aðspurð um þeirra upplifun þá segjast þau hafa upplifað góða þjónustu hvar sem borið var niður „Við getum ekki kvartað yfir neinu í ferlinu sama hvar á er litið. Í Ljósinu hefur sérstaklega verið tekið vel á móti okkur og við erum ævinlega þakklát“ bætir Anna við.

Við þökkum Andra, Önnu og Kristjáni kærlega fyrir komuna og fyrir þetta rausnarlega framlag sem mun fara í að byggja upp starf fyrir unga karlmenn í Ljósinu, bæta við hreyfiúrræði og auka jafningjastuðning svo að þeir karlmenn sem á þurfa að halda hafi vísan stað að leita til.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.