eftir Helgu Jónu Sigurðardóttur, iðjuþjálfa og fjölskyldufræðing í Ljósinu
Það flækist stundum fyrir okkur fullorðna fólkinu að ræða við börnin okkar um hin og þessi viðfangsefni. Sérstaklega þau viðfangsefni sem við skiljum ekki sjálf eða erfitt er að útskýra. Það er auðvitað skiljanlegt því öll viljum við að börnin okkar upplifi öryggi og líði vel. Þá er mikilvægt að börnin séu upplýst og upplifi að þau eða sínir nánustu hafi stjórn á aðstæðum.
Í þessum óvenjulegum aðstæðum hér á Íslandi og í heiminum öllum, á tímum Kóróna-veirunnar, flæða upplýsingar hvaðanæva að og stjórnlaust að því er virðist. Margir hafa valið að verja sig og sína fyrir því áreiti með því að takmarka fréttaflutning inn á heimilið. Sem er jákvætt.
Sum börn þurfa myndrænar útskýringar
En hvernig eigum við að ræða við börnin? Það getur verið hjálplegt að spyrja börnin um hvað þau vita nú þegar og ræða hvort það sé eitthvað sem þau vilji vita. Börn er flink að aðlagast umhverfinu en auðvitað erum við mismundandi og því eru þarfir okkar ekki eins.
Sum börn og unglingar þurfa skýrar, greinargóðar og myndrænar útskýringar til að skilja betur. Því mælum við eindregið með því að nýta sér mynda-/félagsfærnisöguna „Halló ég heiti Kóróna“. Með þeirri nálgun er verið að reyna að einfalda og draga úr orðaflækjum. Svipuð saga er einnig til á ensku „The Corona Virus“.
Þessar aðstæður ýta einnig undir það að mörg ykkar hafa þurft að vernda ykkur sérstaklega vel vegna skerts ónæmiskerfis og annarra veikinda. Þá skiptir máli að þið ræðið hvernig samskiptum við börn eða barnabörn verður háttað, og gott að tala um að tímabundið muni samveran og nándin ykkar á milli minnka. Það sé þó ekki vegna krabbameinsins heldur vegna Kóróna-veirunnar því ef maður fær hana þegar líkaminn er viðkvæmur þá getur tekið lengri tíma að jafna sig.
Umboðsmaður barna hefur einnig tekið saman efni á heimasíðu sinni www.barn.is . Þar eru góðar upplýsingar um hvernig gott er að ræða við börn um þetta málefni.
Njótið ykkar.
Helga Jóna Sigurðardóttir
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.