Get ég aðstoðað?

eftir Guðbjörgu Dóru Tryggvadóttur, iðjuþjálfa í Ljósinu

Guðbjörg Dóra, iðjuþjálfi

„Get ég aðstoðað?“. Þetta er algeng spurning frá afgreiðslufólki í verslunun og flestum finnst sjálfsagt að borin sé upp.

Hvernig bregst þú við þegar ættingjar, vinir og kunningjar bera upp þessa sömu spurningu þegar þú hefur greinst með sjúkdóm? Þau segja: „Láttu mig endilega vita ef ég get gert eitthvað.“ Við í Ljósinu heyrum að ljósberar eiga miserfitt með að bregðast við þessu og eru eflaust ýmsar ástæður fyrir því.

Fyrir mörgum er það nýtt að þiggja aðstoð en eru þaulvön að veita öðrum hana og þykir ekkert sjálfsagðara. Við viljum geta gert hlutina sjálf en ekki íþyngja öðrum með viðbótarverkefnum.

Gera hlutina sjálfur – þiggja aðstoð sem boðin er – biðja um aðstoð
Hugsanirnar þjóta um; „… ég hlýt að geta gert þetta sjálfur en úff hvað þreytan tekur mikinn toll. Hvað ef hlutirnir verða ekki gerðir eins og ég er vanur, ekki nógu vel gerðir? Sýni ég veikleika með því að þiggja aðstoð? Er ég að játa mig sigraðan? Er ég minni maður ef ég get ekki þvegið bílinn, skúrað gólfið eða skipt á rúmunum í einhvern tíma?“

Uppgjöf og vanmáttur eru orð sem verða kannski áleitin. Trúir þú mér ef ég segi að þú sért einmitt að sýna styrkleika með því að þiggja aðstoð? Ég hvet þig til að skoða málið frá þeirri hlið. Ef þú finnur að orkustigið er óvenju lágt er þá ekki rökrétt að þú getir ekki sinnt öllu eins og venjulega?

Trúir þú mér ef ég segi þér að með því að þiggja eða biðja um aðstoð sért þú líklega að gera stóran greiða?

Aðstandendur vilja taka þátt í ferlinu með þér en eru oft óöruggir með hvernig best sé að létta undir. Þá reynir á að þú hleypir þeim að og gerir þér grein fyrir hvað sé mikilvægt fyrir þig að gera sjálfur og hvað þú ert tilbúinn til að fá hjálp við. Væri t.d. gott að fá hjálp við heimilisstörfin, sækja eða skutla börnunum eða langar þig að fá heimsókn „bara til að hanga með þér“; horfa á þátt eða mynd?

Líttu á þetta sem æfingu og mundu að það er í lagi að finnast þetta erfitt í fyrstu.

Gangi þér vel!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.