„Þú færð orku úr Útivist“

Á hverjum miðvikudegi leiðir Birna Markúsdóttir, íþróttafræðingur og hláturmildasti starfsmaður Ljóssins, stóran hóp ljósbera sem eru með grænt ljós frá sínum lækni út í náttúruna í leit að ævintýrum. Við fengum Birnu til að setjast niður í smá stund og segja okkur frá þessum skemmtilega hópi.

Afhverju ætti fólk að koma í útivistina?
„Af því þú færð orku úr útivist! Ég er nokkuð viss um að það sé almenn vitneskja að útigöngur séu góðar og sér í lagi fyrir utan borgarmörkin. Það er dásamlegt að fá hreint loft ofan í lungu (sama á hvaða hraða loftið hreyfist), reyna svolítið á sig líkamlega, finna fyrir vellíðan og upplifa sigurtilfinninguna eftir að hafa lagt það á sig að fara í göngu. Vissulega tekur öll hreyfing orku en það má ekki gleyma að endurgjöfin (orkan sem þú færð) er svo mikið mikið meiri en maður gerir sér grein fyrir.

Hluti hópsins ásamt Ingu Rán, sjúkraþjálfara.

Hreyfing er því eins og bankareikningur nema að innlánsvextirnir eru 150% meiri en hefðbundinn bankareikningur gefur!“

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í í útivistinni?
„Ég held að það sé bara „vor“dagurinn í janúar þegar við gengum Skáldaleið upp að Helgufossi í Mosfellssveit. Við hittum hóp af hestum á leiðinni, bæði eldri hross og tryppi. Þau gengu öll til móts við okkur og hópuðust í kringum okkur. Þar sem ég er mikill dýravinur og hestaáhugamanneskja þótti mér þetta alveg geggjuð upplifun því við komumst svo nálægt þeim öllum, meir að segja tryppin voru gæf. Þegar við lögðum aftur af stað, eftir stutt stopp, gengu hrossin í humátt á eftir okkur eins og þau væru hluti af gönguhópnum. Ég tók tvær myndir, sem eru með þeim flottari sem ég hef tekið í göngunum, annars vegar af litríku krækiberjalyngi með tveimur berjum á (já ég borðaði þau!) og hins vegar af rauðblesóttu tryppi sem naut þess að fá klapp á blesuna.“

Nauðsynlegt að taka eina sjálfu með nýjustu meðlimum hópsins

Hverjir mega koma með í útivistina?
„Útivistin er fyrir alla sem sækja þjónustu Ljóssins og eru í virkri endurhæfingu eða þá sem hafa sótt þjónustuna og eru formlega útskrifaðir úr endurhæfingu. Aðstandendur eru ávallt velkomnir líka – því fleiri því skemmtilegra!“

Hversu langt er gengið?
Það fer algjörlega eftir hvert ferðinni er heitið hverju sinni. Gönguleiðir geta verið allt frá 3 km upp í 7 km en færð, aðstæður og hækkun hafa mikið að segja um hversu langan tíma við erum að ganga.
Við gerum alltaf ráð fyrir því að ganga í a.m.k. 90 mínútur og við göngum rösklega. Við erum dugleg að taka góðar pásur og njóta þess umhverfis sem við erum að fara um hverju sinni. “


Náttúran rétt fyrir utan borgarmörkin er heillandi

Hver er svo rúsínan í pylsuendanum?
„Í lok hverrar göngu förum við, eða þeir sem vilja, á kaffihús og þar spjöllum við saman. Það er engin skylda að koma með en samveran er dásamleg og gefandi.“

Er eitthvað sérstakt svona í lokin sem þér finnst mikilvægt að komi fram?
„Það eru alltaf tveir fagaðilar frá Ljósinu í hverri göngu: sjúkraþjálfari og íþróttafræðingur. Þetta er gert til að tryggja öryggi allra í göngunni og eru báðir þjálfarar með námskeið í skyndihjálp. Þjálfarar Ljóssins eru vel út búnir af nauðsynlegum tækjum og tólum til fyrstu hjálpar og bera ávallt með sér hjartastuðtæki og talstöðvar.“

Við þökkum Birnu fyrir að gefa okkur smá stund á milli viðtala í Ljósinu til að segja okkur frá Útivistinni.

Á heimasíðu Ljóssins undir flipanum Þjónusta má finna síðu Útivistarinnar. Allar nauðsynlegar upplýsingar koma þar fram og þar er einnig dagskrá fyrir göngur hvers mánaðar fyrir sig. Frekari upplýsingar má svo finna á Facebook síðunni Ljósálfar Ljóssins en svo er líka hægt að sækja um inngöngu í Útivistarhóp Ljóssins á Facebook.

Hér fyrir neðan má sjá enn fleiri myndir úr göngunni.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.