Í daglegu tali er oftar en ekki talað um krabbamein sem fjölskyldusjúkdóm.
Að greinast með krabbamein getur valdið miklu umróti og álagi, ekki bara í lífi þess greinda heldur allra í fjölskyldunni. Fjölskyldan stendur frammi fyrir nýjum aðstæðum og breytingum þar sem m.a. hlutverkaskipan getur riðlast. Hvernig einstaklingum tekst að aðlagast breytingum er mismunandi hjá hverjum og einum. Hlutirnir geta þróast á þann veg að það er ekki alltaf sá krabbameinssgreindi sem líður verst andlega.
Að fá stuðning frá utanaðkomandi aðila getur hjálpað aðstandendum að takast á við nýjar og breyttar aðstæður. Að setja orð á tilfinningar getur verið mjög mikilvægt til að líða betur eða umbera líðan sína. Ef maður skilur ekki eitthvað er maður líklegri til að hræðast það. Í stað þess að óttast er gott að tala um það sem liggur á hjarta. Öllum aðstandendum gefst kostur á að koma í viðtal til fagaðila í Ljósinu -hvort sem það er í formi einstaklingsviðtala eða með öðrum fjölskyldumeðlimum.
Í haust hefjast þrjú námskeið fyrir aðstandendur krabbameinsgreindra -> Fyrir börn 6-12 ára, ungmenni 13-17 ára og fullorðna 18 ára og eldri.
Námskeið fyrir fullorðna | Hefst 16. september
Námskeið þar sem skapaður er vettvangur fyrir aðstandendur frá 18 ára til að hittast og ræða um reynslu sína, áhyggjur og þá líðan sem fylgir því að eiga náinn ástvin sem greinist með alvarlegan sjúkdóm. Mikilvægt er að skapa traust og tryggja trúnað til að þátttakendur geti óhindrað tjáð sig um það sem liggur á þeim. Það er líka lögð áhersla á það að hlæja og njóta þess að vera á námskeiðinu.
Á námskeiðinu er fjallað um áfallið sem flestir upplifa þegar fjölskyldumeðlimur greinist með krabbamein og rætt um þær tilfinningar sem oftast fylgja í kjölfarið. Áhrifarík reynslusaga aðstandanda sem kemur í tíma og ræðir um áhrif greiningar og meðferðar á fjölskyldu og umhverfið. Rætt er um samskipti, ábyrgð og stuðning. Farið er í orsakir og afleiðingar streitu og leiðir til að fyrirbyggja og vinna á streitu og fjallað er um hvernig viðhorf og hugsanir hafa áhrif á líðan og atferli og hvernig hægt er að vinna með það. Tímarnir eru sambland af fræðslu og umræðum.
Hefst 16. september og er kennt á þriðjudögum kl. 16:30-18:30, í 5 skipti. Guðrún Friðriksdóttir, iðjuþjálfi og Kristín Hulda, sálfræðingur sjá um námskeiðið.
Hægt er að lesa meira um ungmennanámskeið fyrir aðstandendur með því að smella hér.
Námskeið fyrir börn 6-13 ára | Hefst 1. október
Námskeið fyrir börn og einnig unglinga sem eiga það sameiginlegt að vera aðstandendur. Börnin fá tækifæri að upplifa, skapa og tjá sig í gegnum leik og verkefni í öruggu og styðjandi umhverfi. Lögð er áhersla á að mæta þörfum hópsins og hvers og eins innan hans. Hópunum er aldursskipt: Aldur 6-9 ára og 10-13 ára. Á fyrsta fundi eru foreldrar eða náinn aðstandandi velkomin með.
Hefst 1. október og er kennt á miðvikudögum kl 16:00-17:30. Helga Jóna Ósmann Sigurðardóttir, iðjuþjálfi og fjölskyldufræðingur og Sólveig Hlín Kristjánsdóttir, sálfræðingur kenna námskeiðið.
Hægt er að lesa meira um barnanámskeið fyrir aðstandendur með því að smella hér.
Námskeið fyrir ungmenni 14-17 ára í samstarfi við KVAN | Hefst 6. október
Á námskeiðinu gefst ungmennum kostur á að hitta annað ungt fólk sem er í sambærilegum sporum. Hópurinn fær fræðslu en gefst einnig kostur á að ræða reynslu sína og þá líðan sem fylgir því að eiga náinn ástvin sem greinist með alvarlegan sjúkdóm. Á námskeiðinu ættu þátttakendur að geta fundið aukinn kraft, meira jafnvægi og aukið sjálfstraust og trú á eigin getu. Þau geta orðið meðvitaðari um andlega og líkamlega heilsu, fengið verkfæri til að halda góðu jafnvægi í lífinu og leiðir til að takast á við kvíða, álag og streitu.
Farið verður yfir markmiðasetningu, samskipti, tjáningu og leiðtogahæfni. Við kennum árangursríkar aðferðir í markmiðasetningu og hjálpum þeim að finna út sína helstu styrkleika og hvernig þau getur skilið og nýtt þá styrkleika. Við þjálfum þátttakendur í að tala fyrir framan hóp af fólki og kennum þeim einfaldar og áhrifaríkar reglur í tjáningu. Við förum í gegnum samskiptin í okkar lífi, lærum að setja mörk og fáum tækifæri til þess að þróa leiðtogahæfni og laða fram það besta í okkur sjálfum sem og öðrum og bætum þannig árangur okkar.
Hefst 6. október og er kennt á mánudögum kl. 16:00-18:00, í 3 skipti. Ingveldur Gröndal, þjálfari og ráðgjafi frá KVAN kennir námskeiðið.
Hægt er að lesa meira um ungmennanámskeið fyrir aðstandendur með því að smella hér.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






