Krabbameinsgreining snertir alla í fjölskyldunni. Til að auðvelda samtal og veita stuðning innan fjölskyldunnar býður Ljósið upp á dagskrárliði þar sem aðstandendur geta speglað sig í reynslu annarra, fengið fræðslu og unnið með eigin líðan í öruggu umhverfi.
Hvort sem þú vilt styrkja samtalið á heimilinu eða efla jafnvægi hjá yngri aðstandendum, þá eru þessir dagskrárliðir hannaðir til að mæta þörfum allra.
Námskeið fyrir fullorðna aðstandendur – Hefst 11. mars kl 16:30 – 18:30
Aðstandendur sem eiga ástvin í krabbameinsmeðferð finna ósjaldan fyrir álagi til jafns við þann sem er greindur en álagið birtist á allt annan hátt og er að sumu leyti ósýnilegt. Á námskeiðinu er fjallað um áfallið sem flestir upplifa þegar fjölskyldumeðlimur greinist með krabbamein og rætt um þær tilfinningar sem oftast fylgja í kjölfarið. Skráning og frekari upplýsingar hér
Námskeið fyrir börn sem eru aðstandendur – Hefst 19. mars kl. 16:00 – 17:30
Fyrir börn 6-13 ára sem eiga það sameiginlegt að vera aðstandendur krabbameinsgreindra. Börnin fá tækifæri til að upplifa, skapa og tjá sig í gegnum leik- og verkefni í öruggu og styðjandi umhverfi. Hópnum er aldursskipt í 6-9 ára og 10-13 ára og lögð er áhersla á að mæta þörfum hópsins í heild sinni og hvers og eins innan hans. Á fyrsta fundi eru foreldrar eða náinn aðstandandi velkomin með. –Skráning og frekari upplýsingar hér
Fyrirlestraröðin Samtalið heim – 31. mars – Samlíf og nánd
Í samtalinu heim í mars ræðir Áslaug Kristjánsdóttir, kynfræðingur um þær breytingar sem geta orðið í samböndum eftir krabbameinsgreiningu- og meðferð og hvaða leiðir séu færar til úrlausnar. Fyrirlesturinn fer fram í húsnæði Ljóssins og er einnig streymt rafrænt. – Skráning og frekari upplýsingar hér
Við hvetjum ykkur til að nýta þessi tækifæri til að efla samtal og skilning innan fjölskyldunnar. Skráning á dagskrárliði fer fram í móttöku Ljóssins eða á heimasíðu okkar.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.