Það er ekki einfalt fyrir ungmenni að eiga náinn aðstandanda sem greinst hefur með krabbamein. Oft finna þau fyrir óöryggi, depurð og kvíða, en vita ekki alltaf hvernig þau geta tekist á við þessar tilfinningar. Í Ljósinu viljum við styðja fjölskyldur sem glíma við slíkar aðstæður og bjóðum því upp á einstakt námskeið fyrir aðstandendur á aldrinum 14-17 ára. Þar fá þau verkfæri til að efla sjálfstraust, bæta samskipti og læra að takast á við krefjandi aðstæður – allt á léttu og skemmtilegu nótunum.
Hekla Björk, 15 ára dóttir þjónustuþega í Ljósinu, tók þátt í námskeiðinu og segir það hafa haft mikil áhrif á sig. Hún óttaðist að námskeiðið yrði bara gráthringur þar sem allir væru að tala um krabbamein.
„Ég var ekkert svakalega spennt fyrst, en eftir fyrsta tímann hugsaði ég ‘ok, þetta er ekki alslæmt’. Ég var stressuð fyrir því að hitta fullt af unglingum í sömu stöðu og hélt að þetta væri bara eitthvað grátt og erfitt, en svo var þetta bara ógeðslega skemmtilegt! Við ræddum um lífið, áhugamálin okkar og lærðum um samskipti, styrkleika okkar og hvernig við getum farið út fyrir þægindarammann. Ég er ennþá að nota margt af því sem ég lærði og mér finnst ég hafa fengið mikið meira sjálfstraust eftir þetta.“
Frábært tækifæri sem annars kostar mikið
Námskeiðið er haldið í samstarfi við Kvan, sem er leiðandi í námskeiðum um samskipti, sjálfsstyrkingu og jákvæða sálfræði. Annars staðar kostar slíkt námskeið umtalsverða upphæð, en í gegnum Ljósið er það ungmennum að kostnaðarlausu. Þetta er einstakt tækifæri fyrir þau að styrkja sig og öðlast dýrmæt verkfæri sem þau geta nýtt sér um ókomna framtíð.
Foreldrar ungmennanna sjá líka hversu mikið námskeiðið getur skipt máli. Regína Björk Jónsdóttir, móðir Heklu Bjarkar hikaði ekki við að skrá dóttur sína þegar hún sá auglýsingu um námskeiðið:
„Hekla var byrjuð að missa glampann sinn og það var kominn svona smá skuggi á hana eftir að ég greindist, en námskeiðið hjálpaði henni að standa með sjálfri sér og finna styrk. Mér fannst líka mikilvægt að hún kæmist í hóp með öðrum ungmennum sem skilja hennar aðstæður. Þetta hefur gert samskiptin okkar betri og ég veit að hún á aðferðir sem hún getur sótt í ef hún þarf á þeim að halda í framtíðinni.“
Hvetjum öll ungmenni til að skrá sig
Ungmennanámskeiðið í Ljósinu er einstakt tækifæri til að eignast nýja vini, fá stuðning og læra aðferðir sem gagnast þeim langt út fyrir námskeiðið sjálft. Ef þú þekkir ungmenni sem gæti haft gott af því að taka þátt, hvetjum við þig til að skrá það – þetta er gjöf sem mun endast þeim til framtíðar.
📅 Næsta námskeið hefst 3. mars og er opið fyrir skráningar
📝 Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.
📍Smelltu hér til að skrá ungmenni á námskeiðið.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.