Hundaæði í Ljósinu

Það má segja að undanfarin misseri hafi komið upp sannkallað hundaæði í starfsmannahóp Ljóssins.

Umræður við kaffivélina og í hádegismatnum snúast nú hjá mörgum um allt það sem við kemur besta vin mannsins, og því er við því að búast að þjónustuþegar detti í samtal við okkur um allt frá gönguleiðum og í stefnur í hundauppeldi.

Okkur fannst því kjörið að segja ykkur aðeins frá hundunum okkar og þeim dásamlegu eiginleikum sem þeir eru gæddir.

Það segja margir að maðurinn eigi það til að velja sér hundategund sem líkist sínum persónuleika – Dæmi hver sem vill.

 

Unnur María og Skonsa

Nafn: Unnur María Þorvarðardóttir
Starf: Iðjuþjálfi með landsbyggðarívafi
Hundur: Miniature Pincherinn Skonsa

Skonsa verður tveggja ára í desember og er ansi líklegur innblástur fyrir innslagið um covid-hundafárið í áramótaskaupinu 😉 Skonsa er jafn óþekk og hún er sæt og ber augljós merki ofdekurs og undanlátssemi húsbónda sinna þar sem hún er í töluverðri ofþyngd og heldur að hún stjórni heimilinu. Skonsa elskar fátt meira en að hlaupa úti í nàttúrunni með eigendur sína í eftirdragi, en er ekki mikill aðdáandi akandi ökutækja, hjólreiðafólks eða skokkara, þar sem hún lítur á það sem augljósa áskorun um einvígi að ætla sér að fara hraðar en hún. Hennar uppáhalds staður er í stofuglugganum þar sem hún verndar hús og heimilismenn frá hættulegum vággestum, þar er starfsfólk Póstsins efst á lista ásamt sorphirðustarfsmönnum sem ræna hér ruslatunnum í gríð og ert en skila þeim sem betur fer aftur eftir að hún hefur lesið þeim pistilinn svo undir tekur í Akrafjalli!
En hún er heppin að vera sæt og elskar að kúra uppi í sófa með sínu fólki.

 

Helga Jóna og Tobbi

Nafn: Helga Jóna Sigurðardóttir
Starf: Iðjuþjálfi og fjölskyldmeðferðarfræðingur
Hundur: Miniature Schnauzerinn Tobbi

Tobbi er 4ja mánaða Min. Schnauzer….psst….þessi sem fer ekki úr hárum:) Þvílík himnasending og gleðigjafi var það fyrir fjölskylduna þegar hann kom til okkar 8 vikna. Tobbi er forvitin, klár og skemmtilegur. Hann dýrkar okkur heimilisfólkið jafn mikið og finnst við mjög svo góð á bragðið. Að fara í bað, lauma sér undir sturtubununa og leika sér í rigningunni finnst honum geggjað. Hans besta sjónvarpsefni er að sitja á stól út á svölum og fylgjast með mannfólkinu, leika og lifa lífinu.

 

Solla og Hespa

Nafn: Sólveig K. Pálsdóttir
Starf: Markaðs- og kynningarmál
Hundur: Labradorinn Hespa

Hespa er rúmlega 4 ára labrador sem veit fátt betra en að liggja á sófanum og horfa á Netflix. Hún er mögulega eini Labradorinn á landinu sem er hrædd við vatn. Við erum fjölskyldan erum rosalega ánægð með hana enda er hún einstaklega skemmtilegur og gæfur hundur, svo er hún líka mikill hvati til þess að stökkva upp af sófanum og fara út að ganga… þó svo að við þurfum stundum að sannfæra hana.

 

Kolbrún og Skonsa

Nafn: Kolbrún H. Guðjónsdóttir
Starf: Iðjuþjálfi
Hundur: Íslensk/Border Collie blendingurinn Skonsa (já, önnur Skonsa!)

Skonsa er 6 ára hreinræktaður sveitablendingur sem bræðir hjörtu hvert sem hún fer. Það skemmtilegasta sem hún gerir er að vera úti í sveitinni að hlaupa á eftir hröfnunum. Helst vill hún vera eins blaut og drullug og hægt er og eltir því uppi alla drullupolli.
Við gætum ekki verið þakklátari fyrir þennan rólega og glaða hund sem er sannur vinur í öllu sem lífið hefur upp á að bjóða.

 

Guðný Katrín og Rjúpa

Nafn: Guðný Katrín Einarsdóttir
Starf: Iðjuþjálfi
Hundur: Ameríski Cocker Spanielinn Rjúpa

Þetta er hún Rjúpa. Hún er tveggja og hálfs árs amerískur cocker spaniel. Hún er róleg og heimakær, kannski einum of. Hún er nefnilega alin upp í samkomubanni og er því lítið fyrir að fá gesti eða að hitta ókunnuga hunda og fólk. Hún hefur gaman af snuðra og þefa í göngutúrum í náttúrunni. Það er í eðli hennar að fæla upp fugla, þannig að það er eins gott að hún sé ekki laus þegar hún sér háværan tjald eða gaggandi gæsir.

 

Arna, Skonsa og Birna

Nafn: Margrét Arna Arnardóttir
Starf: Íþróttafræðingur og jógakennari
Hundur: Hálfsysturnar Papillion Skonsa og Birna

Skonsa (já, þriðja Skonsan!!) er nýorðin 3 ára. Hún er kölluð drottninginn og það ekki af ástæðulausu. Hún gengur um eins og drottning, vælir og stappar niður fótum þegar hún fær ekki það sem hún vill, já dramadrottning er frekar réttnefni. Hún heldur að hún eigi að sitja til borðs eins og eigendurnir og vill helst einungis drekka vatn úr krananum. Þrátt fyrir að vera lítil heldur hún samt að hún sé varðhundur og hikar ekki við að gelta þegar einhver gengur framhjá húsinu eigendum til mikils pirrings.
Birna verður 3 ára í nóvember. Það var ekki á stefnunni að fá sér annan hund en hún var bara svo mikið krútt að það var ekki annað hægt. Það er hún með sanni, mesta krútt í heimi. Ef hún væri manneskja væri hún greind með adhd, hún stoppar aldrei og heldur að eigendurnir séu til í að leika allan daginn. Að sleikja tær er efst á óslalistanum og svo finnst henni agalega gott að bíta í hár og skegg.
Báðar eru þær miklir knúsarar og gleðilgjafar og hafa svo sannarlega verið hjartans viðbót við fjölskylduna.

 

Hólmfríður og Eyja

Nafn: Hólmfríður Einarsdóttir
Starf: Iðjuþjálfi
Hundur: Dvergschnauzerinn Eyja

Eyja er eins árs dvergschnauzer sem við fjölskyldan eignuðumst í ágúst í fyrra. Hún hefur heldur betur lífgað upp á heimilislífið og glatt bæði börn og fullorðna. Eyja er virk í leik og starfi, ekki síst þegar kemur að garðinum. Þar erum við allavega líkar, fljótar að gleyma okkur í moldinni skríðandi á milli runna og blóma. Því getur verið ansi erfitt að skamma hana þegar hún nagar í sundur taumana sína til að geta komist í næsta beð. Það er bara svo gott að gleyma sér í gróðrinum!

 

Guðrún og Blíða

Nafn: Guðrún Friðriksdóttir
Starf: Iðjuþjálfi
Hundur: Hreinræktaði blendingurinn Blíða

Blíða er fjögurra ára hreinræktaður blendingur frá Meðalfelli í Kjós. Hún kom til okkar tæplega eins árs og hefur frá upphafi kennt okkur að líta á persónulegt rými þegar kemur að gæludýrum sem misskilning. Henni finnst best að liggja á bakinu og fá bringuklór þannig að mér finnst hún vera hvít en hún er reyndar stór svartur hundur. Henni finnst skemmtilegast að vera með okkur (sama hvað við erum að gera en ef það er leiðinlegt kemur hún með boltann sinn til að gleðja okkur), elta nefið á sér í lausagöngu, borða nammi og synda í ám, vötnum og sjónum en það þarf að hvetja hana til að fara út ef það er rigning og hún sneiðir alltaf framhjá pollum, eftir að hafa fengið sér smá sopa.

 

Brynja og Yoda

Nafn: Brynja Árnadóttir
Starf: Heilsunuddari
Hundur: Labradorinn Yoda

Yoda elskar alla og er algjör delta hundur en er samt búinn að læra að láta alfa hundana ekki vaða yfir sig. Hann er rosa spenntur fyrir að busla í vatni en hefur ekki þorað að synda ennþá. En um helgina fer hann með okkur að Álftavatni og ég mun kenna honum að synda. Hann þarf að heilsa öllum bæði dýrum og mönnum og þá sérstaklega mannfólki sem þolir ekki hunda 😃. Hann er þögull og geltir yfirleitt ekki nema þegar hann er einn og vantar athygli því hann er svo mikil félagsvera og elskar lifrapylsu og að fá klór á bumbuna 🥰

**https://www.pressreader.com/…/20200429/282003264557089

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.