Úr viðjum fortíðar og framtíðar – núvitund í daglegu lífi

Eftir Elínu Kristínu Klar sálfræðiráðgjafa

Elín Kristín Klar

Við getum varið miklum tíma og orku í að velta upp fortíð og framtíð. Hugsanir geta snúist í hringi og fests í því sem hefði mátt betur fara. Við liggjum kannski uppi í sófa til að slaka á en erum föst í eftirsjá yfir einhverju sem við sögðum við félaga í síðustu viku; hefði ég átt að orða þetta öðruvísi eða hegða mér með öðrum hætti. Atburðir sem eru liðnir og ekki er hægt að breyta.

Á sama tíma og við getum verið uppfull af eftirsjá eyðum við miklu púðri í að hafa áhyggjur af framtíðinni. Á meðan við drekkum ljúffengt kaffi með vinkonu höfum við kannski áhyggjur af verkefni sem þarf að skila í vinnunni í næstu viku.

Að festast í eftirsjá og áhyggjum getur ýtt undir andlega vanlíðan og rænt okkur meðvitaðri upplifun að augnablikum og tækifærum til að efla þrautseigjuna. Því þarna geta leynst jákvæðar upplifanir sem við hreinlega missum af.

 

Neikvæða hugsanaskekkjan

Núvitundin hjálpar okkur að takast á við annað mynstur sem kallast neikvæð hugsanaskekkja og er í raun hugrænn öryggisbúnaður. Það sem virðist hættulegt eða neikvætt fær mesta athygli okkar. Ef það eru fimmtán hlutir sem ganga snuðrulaust fyrir sig yfir daginn en tveir þeirra gera það ekki þá munu þessir tveir fá mesta athygli okkar.

Flestir kannast við það að standa í biðröðinni í búð við kassa sem gengur hægar fyrir sig en aðrir og hugsa „alltaf lendi ég á hægasta kassanum“. Það getur hinsvegar varla staðist að allir lendi alltaf á þeim kassa. Ef við hinsvegar þjálfum núvitundina, aukum meðvitundina um augnablikið þá getum við veitt því athygli sem bætir andlega líðan okkar.

 

Vellíðan í erfiðleikum

Það gæti í fyrstu virst þversagnarkennt að auka meðvitund sína um það sem er erfitt og getur reynst sárt eða kvíðavaldandi þegar eitthvað bjátar á. En rannsóknir hafa þvert á móti leitt í ljós að núvitund eykur einnig andlega vellíðan á erfiðum tímum. Það að viðurkenna stöðu okkar og gangast við erfiðleikunum hjálpar okkur að takast á við þá. Fólk sem stundar reglulegar æfingar til að efla núvitundina er hamingjusamara, heilbrigðara og upplifir almennt minni depurð, streitu og kvíða.

Slíkt byggir upp meiri ánægju í samböndum og bætta frammistöðu í þeim verkefnum sem fólk tekur sér fyrir hendur. Núvitundin hjálpar okkur að ákveða hvað fær athygli okkar hverju sinni. Stundum getur það hjálpað að beina athygli okkar meðvitað frá vissum viðfangsefnum, taka okkur pásu frá þeim og dreifa huganum í vissan tíma til að vera síðan betur í stakk búin til að takast á við þau. Það felur þá ekki í sér afneitun heldur meðvitaða ákvörðun um hvert maður beinir athygli sinni á hverjum tíma.

 

Besta verkfærið kostar ekki neitt

Núvitundina þarf vissulega að þjálfa reglulega en þegar við náum að nýta okkur hana, þá er hún eitt besta verkfærið í gegnum lífið, og hún kostar ekki neitt. Þegar við náum að einbeita okkur að því sem á sér stað akkúrat núna þá upplifum við augnablikið, og þar með lífið, á meðvitaðri hátt.

Er það ekki þess virði að þjálfa?

Tvær núvitundaræfingar í daglegu lífi:

Núvitundargöngutúr: Göngutúr er fullkomið tækifæri til að þjálfa núvitundina á auðveldan og léttan hátt. Næst þegar þú ferð í göngutúr, reyndu að vera meðvitaður/meðvituð um umhverfið þitt. Reyndu að taka eftir. Hvað sérðu? Finnur þú kannski einhverja lykt? Hvernig er veðrið? Hverju öðru tekur þú eftir?

Að anda í núvitund: Finndu þér stað þar sem þú færð ró og næði. Lokaðu augunum og fylgstu með andardrættinum þínum. Andaðu inn og andaðu út, án þess að reyna að hafa áhrif á öndunina, leyfðu henni að koma eðlilega. Taktu eftir loftinu þegar þú dregur súrefnið inn í gegnum nefið eða munninn. Fylgstu með hvernig þú andar og reyndu að halda einbeitingunni á því. Láttu öndunina koma af sjálfu sér. Leyfðu þér að upplifa þig eins og þú ert án þess að reyna að breyta því og án þess að dæma. Haltu áfram að fylgjast með andardrættinum þínum í nokkrar mínútur.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.