Eftir Kolbrúnu Höllu iðjuþjálfa
Það er snjókoma, myrkur og kalt úti. Þú ert búin að setja upp jólaljós og jafnvel baka smákökur, nú eða bara kaupa þær. Hvað er þá meira freistandi en að setjast upp í sófa með teppi, smákökur og kakó eða jólaöl og setja á eina hugljúfa jólamynd?
Hamingjan í ræmunni
Fyrir mörgum er það órjúfanleg hefð að horfa á jólamyndir í desember og margir horfa á sömu myndirnar ár eftir ár. En af hverju höfum við svona gaman af jólamyndum? Það er einfaldlega vegna þess að þær veita okkur hamingju. Hamingja getur bæði kviknað af einhverju ánægjulegu og nautn t.d. við að borða góðan nammimola en líka vegna upplifunar sem hefur merkingu fyrir okkur og gildi en sú hamingjutilfinning situr oftast í okkur lengur. Sama af hvaða ástæðu hamingjan kviknar þá er mikilvægt fyrir velferð okkar og vellíðan að upplifa hamingju.
Jólamyndir eru margar hverjar uppfullar af húmor, rómantík, heillandi leikurum, gerast á fallegum stöðum og svo er endirinn í þeim yfirleitt gleðlilegur. Allt þetta vekur með okkur jákvæðar tilfinningar. Myndirnar geta líka vakið með okkur dýpri tilfinningar eins og von, ást og tilgang. Það er því góð tilhugsun að setjast niður og horfa á eina góða jólamynd þar sem við vitum að við getum búist við góðri upplifun og ánægjulegum endi.
Öryggið í fyrirsjáanleikanum
Jólamyndir hafa þann stimpil á sér að vera fyrirsjáanlegar og klisjukenndar. Fyrir mörgum eru þær guilty pleasure sem lætur okkur líða vel og því eru það ekki gæðin sem skipta endilega máli. Við viljum sjá að allt verði í lagi og að söguhetjurnar upplifi að lokum hamingju og sannan jólaanda. Fyrirsjáanleikinn veitir líka öryggi. Sama hversu ótrúlegur og einfaldur söguþráðurinn er þá snertir hann raunverulegar tilfinningar. Það er einmitt þessi fyrirsjáanleiki sem lætur okkur horfa á sömu myndirnar ár eftir ár, kunnugleikinn er góður. Myndirnar vekja líka upp minningar, tilfinningar og upplifanir sem við tengjum við jólin t.d. úr æsku.
Manni á alls ekki að líða illa yfir því að gefa sér tíma í að setjast niður og horfa á jólamynd, þó maður hafi séð hana oft áður. Bara það að hlæja yfir einföldum brandara getur haft góð áhrif á líðan. Að hlæja getur minnkað kvíða, stress og depurð þar sem það losnar um gleðihormónin. Aðrar jákvæðar tilfinningar eins og von, samkennd, þakklæti og gleði hafa svo áhrif til lengri tíma og sitja í okkur lengur.
Sundur en samt saman
Nú á þessum skrítnu tímum þegar við getum ekki endilega hitt alla fjölskylduna er tilvalið að setjast niður og horfa á jólamynd og gleyma okkur aðeins. Jafnvel er hægt að skipuleggja bíókvöld þar sem allir velja saman mynd og horfa á myndina á sama tíma, hver á sínu heimili. Síðan er hægt að hittast á t.d. Zoom eftir myndina og spjalla saman. Netflix er líka farið að bjóða upp á viðbót þar sem er hægt að horfa saman á sömu myndina á sitthvorum staðnum (Hægt að Googlea Netflix watch party).
Við mælum því eindregið með því að taka sér smá tíma frá amstri dagsins núna í dimmasta mánuði ársins og horfa á jólamynd og hafa það náðugt. Eftir skrítið ár höfum við öll gott af því að gleyma aðeins stað og stund inn í töfraheim jólamyndanna!
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.