Eftir Guðrúnu Friðriksdóttur, iðjuþjálfa
Öllum finnst gaman að gera eitthvað. Það sem okkur finnst gaman breytist með tímanum og eftir tímabilum. Það skiptir líka máli með hverjum við erum. Um jólin fylgjum við alls konar hefðum sem við tengjum við hátíðarnar. Erum við sátt við þessar hefðir? Fylla þær okkur gleði og hamingju?
Hvað er kósý?
Um jólin viljum við endilega gera eitthvað sem er gaman og hafa það notalegt. Það er þannig tímabil. Við viljum „hafa það kósý“ og „njóta“. En hvað þýðir það? Hvað þýðir það fyrir þér? Kertaljós, súkkulaði, hundslappadrífa, ný bók og hrein sængurföt eða spilakvöld með fjölskyldunni? Hefur það sem þér finnst vera notalegt breyst í gegnum tíðina? Gerir þú ennþá eitthvað sem þér fannst vera kósý einu sinni án þess að velta fyrir þér hvort sú skoðun hefur breyst? Er eitthvað sem var einu sinni notalegt farið að vera streituvaldandi? Tímafrekt? Dýrt? Ekki í boði árið 2020?
Matur og gjafir
Yfirleitt tengjum við notalegheit á einhvern hátt við mat. Matur getur miðlað flóknum tilfinningum og það er ekki tilviljun að við tengjum hann ósjálfrátt við tímamót, viðburði og hátíðisdaga. Við höldum alls kyns matarhefðum í heiðri á jólunum. Gerum steikina eins og mamma gerði, höfum það sama á boðstólum í hádeginu á aðfangadag, sama meðlætið á jóladag. Sömu smákökurnar og hafa alltaf verið bakaðar. Við viljum finna til matarnándar við fólkið okkar og hátíðina. Það er notalegt.
Við viljum gefa fólkinu okkar gjafir. Eitthvað sem þau vantar eða langar í og verjum löngum tíma í að finna fullkomnar gjafir. Sumir lenda í því að verja of miklum peningum í gjafir í von um að gleðja.
Hámhorf og teygjubuxur
Við viljum gleðja og við viljum líka gleðja okkur sjálf. Margir nota jólin til að ganga langt í að njóta vellystinga. Borða konfekt á hverjum degi, fara í buxur með teygju til að fá sér aðeins meiri afganga, horfa á þáttaseríur, kvikmyndir og lesa þangað til bakið þolir ekki meiri kyrrsetu. Til þess eru jólin.
En hvað með að gera þessa hluti meðvitað? Hvaða kvikmyndir ertu að velja? Næra þættirnir og bækurnar sálina? Hvað með að bæta viljandi inn nýjum hefðum til að fagna hátíðunum? Hvað með að bæta nýjum tilfinningum við kósý, gaman og gleðilegt? Hvernig væri að leita að nánd, kærleika, snertingu, tengslum, hlýju, einlægni og öryggi? Hvað með að leggja þig fram um að háma í þig gleði, hamingju og vellíðan? Og fá þér svo einn Mackintoshmola í viðbót.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.