eftir Kolbrúnu Lís Viðarsdóttur
Sogæðar mynda sérstakt æðakerfi um allan líkamann með þeirri undantekningu að þær finnast ekki í æðakerfi, miðtaugakerfi og rauðum beinmerg.
Í fyrstu eru sogæðaháræðar lokulausar en safnast saman í stærri æðar sem eru með lokum og sléttum vöðvafrumum í æðaveggnum. Þær líkjast bláæðum hvað gerð snertir en hafa þynnri veggi, fleiri lokur og eru með eitla á reglulegu millibili. Þessi sérstæða bygging leyfir aðeins innstreymi en ekki útstreymi.
Sogæðarnar safnast saman í sí stærri æðar sem að lokum myndar sogæðasafnæð í brjóstholinu sem tæmir sig í bláæð efst í því.
Skilar 2 lítrum af vökva á dag
Sogæðavökvinn er um 3 % af líkamsþyngd og inniheldur úrgangsfitu, fitu frá meltingarvegi og ýmis nauðsynleg prótein. Við eðlilegar aðstæður skilar sogæðakerfið um 2 lítrum af vessa á sólarhring, en geta þess er allt að tíföld. Vegna þessa eiginleika getur flutningsgeta sogæðakerfisins verið minnkuð í langan tíma án þess að sogæðabjúgur myndist.
Hlutverk sogæðakerfisins er aðallega þríþætt. Fyrir það fyrsta tekur það umframvökva sem bláæðakerfið skilur eftir, síar það og skilar ásamt þeim próteinum sem í honum eru, aftur í blóðrásina. Sogðæðakerfið gegnir því mikilvægu hlutverki í vökvajafnvægi líkamans. Í öðru lagi taka sogæðar þarmanna við fituefnum og fituleysanlegum vítamínum og koma þeim í blóðrásina. Að lokum tekur sogæðakerfið þátt í varnar- og ónæmiskerfi líkamans gegn framandi frumum og örverum.
Hvað er sogæðabjúgur?
Sogæðabjúgur er vökvasöfnun vegna skertrar starfsgetu sogæðakerfisins eða vegna aukinnar framleiðslu sogæðavökva.
Sogæðabjúgur er flokkaður í tvo undirflokka, primer og secunder. Það fyrrnefnda er af óþekktum uppruna. Þá eru til staðar meðfæddir gallar eða sogæðar vantar frá byrjun, sem leiðir til skertrar flutningsgetu sogæðakerfisins. Það síðarnefnda er afleiðing vegna annara sjúkdóma. Algengusta orsök í hinum vestræna heimi er krabbamein og meðferðarúrræði sem notuð eru til að meðhöndal það. Við geislun eykst áhættan á sogæðabjúg, þá sérstaklega þegar geislað er í holhönd.
Aðrar algengar orsakir secunder sogæðabjúgs eru skaðar á sogæðakerfinu td. eftir ýmsar skurðaðgerðir eða bruna. Ekki er hægt að segja til um hverjir fái sogæðabjúg og ef til hans kemur hvað hann verður mikill. Einnig getur sogæðabjúgur komið mörgum árum eftir krabbameinsmeðferð og þá oft sem afleiðing eftir sýkingu eða ofreynslu.
Hvernig lýsir sogæðabjúgur sér?
Sogæðabjúgur byrjar yfirleitt með aukinni spennu í húð, aukinni þyngdartilfinningu líkamshlutarins og að lokum umfangsaukningu. Þessu fylgja yfirleitt engir verkir en getur haft veruleg áhrif á daglegt líf.
Þegar sogæðabjúgur myndast fyrst þá er hann afturkræfur. Hann er mjúkur og minnkar í hvíld og þegar líkamshlutinn er í upphækkaðari stöðu. Ef að bjúgurinn er kominn á alvarlegra stig er hann ekki afturkræfur. Hann minnkar ekki í hvíld eða við upphækkun. Vefurinn hefur þá tekið varanlegum breytingum með bandvefsmyndun.
Að vinna með einkenni sogæðabjúgs
Þar sem að engin lækning er til við sogæðabjúg er markmið meðferðar að draga úr einkennum. Sú meðferð sem reynst hefur best kallast Combined physical therapy (CPT) . Sú meðferð er byggð upp í tveimur þrepum.
Á fyrra þrepinu er áhersla lögð á að færa burt þann vessa sem hefur stöðvast. Í besta falli með daglegri meðferð sem samanstendur af sogæðanuddi, vafningum og æfingum sem örva flæði vessans. Sogæðanudd er sérhæft nudd sem að eykur vessaflæði og eflir virkni eitla og heilbrigðu sogæðanna og eru sérhæfðir sjúkraþjálfarar sem bjóða upp á þessa þjónustu en venjulegt nudd gagnast ekki við sogæðabjúg. Sogæðanudd er létt nudd sem framkallar hvorki sársauka eða ertingu. Markmiðið er að beina vessaflæðinu beint í átt að nærliggjandi starfhæfum eitlum. Samhliða sogæðanuddinu er mælt með þrýstimeðferð, til að koma í veg fyrir að vessi sem var færður til með sogæðanuddinu renni strax til baka í útliminn.
Fræðsla og leiðbeiningar varðandi húðumhirðu og hreinlæti eru mjög mikilvægar, þar sem varnir líkamans minnka við sogæðabjúg. Aukin hætta er á bakteríu – og sveppasýkingum en sýking getur leitt til aukningar á sogæðabjúg þar sem þær setja aukið álag á sogæðakerfið. Þetta fyrsta þrep tekur 2 – 4 vikur.
Seinna þrepið er viðhaldsmeðferð. Þar spilar fræðsla um þrýstimeðferð stórt hlutverk sem og áframhaldandi leiðbeiningar varðandi húðumhirðu, hreyfingu og álag. Eins þarf að leiðbeina hvað beri að varast.
Þrýstimeðferð, hvort sem er þrýstiermi eða sokkur er mikilvæg. Því meiri þrýstingur því betra, að því tilskyldu að ekki þrengi að frárennslissvæðum. Í besta falli ættu einstaklingar sem að þjást að sogæðabjúg að hafa aðgengi að þrýstiermum/sokkum í mismunandi styrkleika.
Hæfileg hreyfing er af hinu góða og styrkir sogæðakerfið. Mælt er með sundi, göngu og stafagöngu. Ofreynsla eykur álagið á sogæðakerfið og því er best að byrja rólega og auka álagið jafn og þétt.
Daglegt líf með sogæðabjúg
Þar sem að sogæðabjúgur er krónískt ástand þarf einstaklingurinn að fylgja ákveðnum reglum. Ekki er æskilegt að fara í blóðprufur, bólusetningar og blóðþrýstingsmælingar á handlegg með sogæðabjúg. Fyrirbyggja þarf meiðsli á líkamspartinn til að koma í veg fyrir sýkingar og mælt er með að nota hlífðarhanska við heimilisstörf og garðvinnu. Forðast skal fatnað sem þrengir að frárennslissvæðum og það sama á við um skartgripi, úr og hliðartöskur, auk þess eykur hiti og kuldi álagið á sogæðakerfið.
Ef bjúgur myndast, þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir og lífstílsbreytingar er mikilvægt að viðkomandi leiti til sjúkraþjálfara sem er sérhæfður í að meðhöndla sogæðabjúg.
Einnig er mælt með daglegu sjálfsnuddi. Endilega skoðið meðfylgjandi myndband sem að sýnir skref fyrir skref hvernig á að framkvæma sjálfsnudd á handlegg.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.