Kæru vinir,
Við erum stolt og þakklát að geta sagt frá því að Ljósið fær afhent nýtt húsnæði 1. febrúar! Húsið er staðsett við Gylfaflöt 5 í Grafarvogi. Þar er gott aðgengi, nóg af bílastæðum og fallegt útivistarsvæði í næsta nágrenni. Rýmið er um 1.300 fm, með möguleika á stækkun upp í allt að 1.700 fm í framtíðinni. Þetta er stórt skref, í rétta átt, fyrir starfsemi Ljóssins og skapar mun betri aðstöðu fyrir alla þá sem til okkar leita.
Fram undan eru þó töluverðar breytingar á húsnæðinu svo það henti starfsemi Ljóssins sem best og má gera ráð fyrir því að sú vinna taki nokkra mánuði. Stefnt er að því að flytja starfsemina í nýja húsnæðið á þessu ári.
Eins og flestir vita, þá er núverandi húsnæði Ljóssins löngu orðið of lítið og þröngt fyrir þá fjölbreyttu og mikilvægu starfsemi sem þar fer fram. Því erum við afar spennt fyrir þessum fréttum og erum búin að vera spennt að deila þeim með ykkur!
Við í Ljósinu viljum leggja ríka áherslu á eitt: töfrar Ljóssins búa ekki í veggjum, heldur í fólkinu og andrúmsloftinu. Markmiðið í nýja húsnæðinu er að skapa hlýtt, öruggt og aðgengilegt rými sem heldur utan um fólk, líkt og Ljósið hefur alltaf gert. Við munum öll leggja okkar af mörkum til að gera nýja húsið að heimili Ljóssins, þar sem hlýja, stuðningur og von fá áfram að blómstra.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






