„Andartak“ sýning Þóru Bjarkar Schram

 

Fimmtudaginn 29.september opnar Þóra Björk Schram persónulega einkasýningu sem ber nafnið „Andartak“ í Gallerí Göng í Háteigskirkju.

Þóra Björk mundar pensilinn á Ítalíu

Þóra Björk mundar hér pensilinn á Ítalíu.

Hún ánafnar Ljósinu eitt af verkum sýningarinnar, og vill gefa þannig til baka til Ljóssins.

Þóra Björk var stödd á Ítalíu þar sem hún vann að listsköpun sinni þegar læknirinn hringdi með þau tíðindi að hún hefði greinst með krabbamein. Í samráði við lækninn sammældust þær um að hún myndi klára það tímabil sem hún ætlaði sér að vera úti og kæmi svo heim í aðgerð. „Ég var ekki hrædd við að krabbinn tæki völdin, var ekki með hugann við veikindin úti, en vissi af því sem var að fara að gerast. Ég málaði mig í gegnum þetta“ segir Þóra.

Velur að lifa lífinu lifandi og í litum

Málað í hitanum á Ítalíu

Verkin á sýningunni eru unnin bæði á Ítalíu og Íslandi og eru hluti af þerapíu Þóru Bjarkar í gegnum krabbameinsferlið. „Þessi ferli og sýningin er bara eitt augnablik í lífi mínu, en ég vel að lifa lífinu lifandi og í litum. Lífsgleði endurspeglast í málverkunum mínum og með þeim hef ég fundið fyrir krafti, gleði og tilhlökkun að halda áfram að skapa þrátt fyrir hindranir sem orðið hafa á vegi mínum“.
Viðhorf og jákvæðni Þóru Bjarkar eru einstök, en hún hefur starfað við myndlist í fjölda ára og telur það vera mikil forréttindi að geta haldið áfram að vinna þrátt fyrir krabbameinsferlið. „Augnablikið, málunin er núvitundin mín. Þegar mér líður illa fer ég að vatsnlita, er ekki að eltast við fullkomnun. Við verðum aldrei fullkomin, þetta eru bara moment eða augnablik í lífi mínu. Fyrir mér sé ég þetta sem tímabil þú klárar og svo held ég áfram reynslunni ríkari“ segir Þóra Björk.

Endurhæfingin í Ljósinu

Skyggnst inn í vinnurýmið á Ítalíu

Þóra Björk kom í endurhæfinguna í Ljósinu snemma í ferlinu. „Ég var svo lánsöm að eiga góðan vin sem sækir Ljósið og hann fór með mig í mitt fyrsta skipti. Þar kynnti hann mig fyrir starfsfólkinu og mér var að sjálfsögðu vel tekið. Ég skráði mig í nokkur námskeið sem hafa undirbúið mig fyrir hvað koma skal í lyfjameðferðinni, sem ég var bara engan hátt að skilja fyrr en ég gekk á vegg heima þremur dögum eftir fyrsta skammtinn“

Flestar hliðar endurhæfingarinnar hafa nýst henni vel, og nefnir hún sérstaklega hversu gott það er að hafa stuðninginn og góðar lausnir hjá fagaðilunum þegar rútínan breytist í krabbameinsferlinu.

„Jafningjafræðslan er mér mjög mikilvæg þar sem ýmsir fagaðilar koma og halda fyrirlestur um krabbameinið og lífið. Þar getur maður endurspeglað sig í reynslusögum í hópnum sem er einstakt að geta gert. Trúið mér ég er búin að kynnast dásamlegu fólki sem ég er svo þakklát fyrir, enda allir með eitt markmið og það er að lífa lífinu í Ljósi. Jóga og slökun eru náttúrulega möst fyrir mig sem er í eðlisfari mjög aktíf og að enda í hádegismat í Ljósinu toppar allt“ Segir Þóra Björk glaðbeitt.

Lærdómsríkt ferli

Ferlið hefur verið Þóru lærdómsríkt á margan hátt, og góð áminning að huga vel að líkama og sál.

Verkið Birta sem Þóra Björk málaði fyrir Ljósið

Einnig segist Þóra vera dugleg að minna allt sitt fólk á að fara í reglubundnar skoðanir, en einmitt þannig greinist krabbameinið hennar.

Hún vinnur mikið ein á vinnustofunni sinni og finnst gott að sækja endurhæfingu í Ljósið, líka upp á félagsskapinn. Þóra Björk vinnur með blandaða tækni í sínum verkum, akrýl, blek og þurrkrít á striga. Verkið sem hún málaði fyrir Ljósið heitir “Birta” 85 x 125 sm akrýl, blek og þurrkrít á striga.

Opnun sýningarinnar er fimmtudaginn 29.september klukkan. 17:00 í Gallerí Göng í Háteigskirkju.

Brot frá sýningunni í Gallerí Göng

Opið er alla daga til kl.16:00, nema föstudaga til kl.15:00. Sýningin stendur til 17.október. Þóra Björk verður á staðnum eins og orkan leyfir, einnig má hafa samband við hana ef áhugi er fyrir leiðsögn. Hér má sjá viðburð sýningarinnar.
Við hvetjum okkar fólk að kíkja á þessa spennandi sýningu og óskum Þóru Björk góðs gengis.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.