„Ég hvet alla til að leita til Ljóssins sem hafa þörf fyrir það í endurhæfingarferlinu, jafnvel þó fólk komi ekki hingað strax. Eitt er stórkostlegt við þennan stað að þar er ekki til neikvæðni innandyra. Það er góður andi í Ljósinu og stórkostlegt sem búið er að gera þar. Sjálfur hafði ég heyrt af Ljósinu og kynnti mér starfssemina þegar ég greindist árið 2015 en fór síðan að koma hingað reglulega haustið 2019. Þá var ég settur í nokkurra mánaða veikindaleyfi. Upp úr því fór ég að koma hingað tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Í fyrstu fór ég talsvert í nudd og viðtöl hjá iðjuþjálfum og fleiri þjálfurum. Upp á síðkastið hef ég mætt í æfingasalinn tvisvar sinnum í viku og mæti þá hingað klukkan átta og byrja á að hita upp með göngutúr um hverfið. Svo mæti ég í strákamatinn á föstudögum einu sinni til tvisvar sinnum í mánuði en þess utan finnst mér gott að koma bara og sitja hér í rólegheitum einn og fá mér kaffi og spjall,“ segir Ebenezer Bárðarson sem hefur sótt Ljósið í rúm tvö ár í sinni endurhæfingu.
Gerir hlutina á jákvæðum nótum
„Mitt viðhorf er að gera hlutina á jákvæðum nótum og ég er mikið í því að umorða hlutina. Ég nota mikið jákvætt viðmót til að létta samtalið um sjúkdóminn. Það fær fólk til að hlæja og það er öllum hollt að nota jákvæðni og húmor. Mér dettur t.d. ekki í hug að hjálpa fólki en ég er alveg til í aðstoða. Þetta er nefnilega tvennt ólíkt. Að breyta neikvæðum orðum í jákvæð er ekkert nema gott. Þannig er ég líka ekki krabbameinssjúklingur ég er bara maður með krabbamein, það er mikill munur á hvernig þú lítur á, enda er hausinn ótrúlega magnað fyrirbrigði. Á þessum nótum hef ég líka rætt við sálfræðinginn minn sem hefur hjálpað mér mikið í gegnum tíðina og ég segi að sálfræðingar séu ein alnauðsynlegasta stétt sem til er,“ segir Ebenezer.
Einn á ferð á Spáni
Ebenezer er bifvélavirki að mennt en hefur tekið upp á ýmsu um ævina eins og t.a.m. því að ferðast einn um Spán á mótorhjólinu sínu í níu mánaða ferðalag. Eftir ferðalagið hóf hann störf að Sólheimum í Grímsnesi.
„Hvað er þessi gaur með hár niður á bak og skegg niður á maga að vilja á Sólheima, sá hlýtur að vera í naflaskoðun var ég viss um að þær myndu hugsa konurnar tvær sem tóku mig í atvinnuviðtal. En starfið fékk ég og önnur þeirra æviréði mig en við giftum okkur í hitt í fyrra,“ segir Ebenezer og hlær að minningunni. Á Sólheimum hefur hann selt slaufur fyrir Mottumars og selt þar upp einar 50-70 slaufur á augabragði.
Frekar með bílinn í skoðun
Ebenezer greindist fyrst með blöðruhálskrabbamein árið 2015 í kjölfar nýrnasteinakasts en hafði ekki kennt sér meins fram að því og segir greininguna því hafa komið sér mjög á óvart.
„Ég er bifvélavirki og ef maður heyrir skrölt í bílnum þá fer maður og lætur skoða hann og borgar fyrir þá viðgerð sem þarf. En þó þú sért sjálfur að hrökkva upp af þá gerir þú kannski ekki neitt. Í þessu tilviki vildi þó til að ég var á göngu og geng fram hjá heilsugæslunni minni og ákveð að fara þar inn. Fæ tíma og er skoðaður vel og vandlega og í framhaldinu sendur m.a. í sýnatöku. Þá kemur í ljós að ég er með krabbamein í blöðruhálskirtlinum og þegar læknirinn tilkynnir mér það segi ég ok og hvað eigum við að gera í því? Læknirinn segir að í raun sé þrennt í stöðunni, að gera ekki neitt, taka blöðruhálskirtilinn eða fara í geisla og ég valdi í samráði við konuna mína að fara í brottnám,“ segir Ebenezer.
Herferðin skemmtilegt verkefni
Ebenezer kemur fram í nýjustu herferð Ljóssins þar sem hann hringir í náinn aðstandanda og Ljósavin og þakkar fyrir þeirra stuðning. Hann segir leikstjórann vera stórkostlegan og hópurinn og vinnan í kringum herferðina hafi verið ofboðslega skemmtileg.
„Ég talaði við konuna mína sem er minn nánasti aðstandandi. Svo hringdi ég í konu vestur á Ísafirði sem er Ljósavinur, það var ekkert mál enda var hún að vestan eins og ég,“ segir Ebenezer og brosir glettnislega.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.