Vilt þú eignast landsliðstreyju íslenska karlalandsliðsins í fótbolta? Nú geta allir tekið þátt í góðgerðarlottói Charityshirts.is og átt möguleika á að eignast treyju sem Jón Daði Böðvarsson lék í þegar Ísland keppti við Frakkland í október 2019.
Miðinn í lottóinu kostar einungis 1000 krónur og rennur öll upphæðin sem safnast í starf Ljóssins. Dregið verður 12. október.
Af hverju Ljósið?
Jón Daði Böðvarsson er atvinnumaður í fótbolta sem spilar í dag fyrir Millwall F.C. í Austur-London. Hann þekkir persónulega þjónustu Ljóssins en mamma hans, Ingibjörg Erna Sveinsdóttir, hefur sótt endurhæfingu í Ljósið samhliða krabbameinsmeðferðum.
Í upphafi þessa árs sagði Jón við mömmu sína að hann vildi að Ljósið myndi fá treyju til að bjóða upp og vill hann með þessu framlagi gefa til baka til starfseminnar.
„Við erum ótrúlega snortin og stolt að Jón Daði vilji styðja starfsemi Ljóssins með þessu móti. Við í Ljósinu erum svo stolt af landsliðinu okkar og því er einstaklega ljúft að vita til þess að þar séum við með stuðningsmenn Ljóssins“ segir Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins.
Við þökkum Jóni Daða og öllu hans fólki fyrir stuðninginn og vonum að sem flestir láti reyna á lukkuna í þessu skemmtilega góðgerðarlottói.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.