Á fallegu heimili á Selfossi býr Ester Halldórsdóttir, kraftmikil þriggja barna móðir, stjúpmóðir og átta barna amma, ásamt eiginmanni sínum og hundinum Skugga.
Ester er ein þeirra fjölmörgu sem sótt hefur endurhæfingu í Ljósið en hún byrjaði í þjónustu í maí 2019, þremur mánuðum eftir að hafa greinst með krabbamein í brjósti. Líkt og sögur allra okkar ljósbera, lýsir frásögn Esterar margbrotnu ferli sem lagt er í þegar ákveðið er að sækja stuðning og endurhæfingu samhliða krabbameinsgreiningu. Fyrir Ester var einn hluti af ferlinu að ferðast yfir Hellisheiðina til að sækja endurhæfinguna og óhætt er að segja að hún hafi ekki sett það fyrir sig og var hún að meðaltali á Langholtsveginum þrisvar í viku þar til Covid-19 skall á.
Fékk verkfæri sem nýtast vel
Ester er ein af þeim sem kom fljótt í Ljósið eftir greiningu. „Ég vissi af Ljósinu og því góða starfi sem þar er unnið enda er ég iðjuþjálfi og þekkti því vel til starfseminnar. Ég ákvað því að fara í Ljósið áður en ég fór í aðgerðina og sé ekki eftir því.“ segir Ester og tekur fram að sér hafi verið einstaklega vel tekið í Ljósinu. „Auðvitað var það áfall að greinast með krabbamein en ég ákvað strax að taka þessu sem hverju öðru verkefni sem þyrfti að takast á við,“ bætir Ester við.
Fljótlega eftir komuna í Ljósið fór Ester á námskeið fyrir nýgreindar konur en á meðal þess sem endurhæfing Esterar hefur falið í sér eru námskeið, fyrirlestrar, stuðningshópar, jóga, sjúkraþjálfun, markþjálfun og nudd. „Það var ómetanlegt að njóta þeirrar fagmennsku og manngæsku sem starfsfólk Ljóssins býr yfir og ekki síður að hitta aðra sem eru í sömu sporum og ég. Það var mikill stuðningur,“ segir hún og bætir við öll starfsemi Ljóssins sé þverfagleg og sérfræðingarnir vinni afar vel saman með hagsmuni einstaklingsins að leiðarljósi. Þar er tekið á öllum þáttum til valdeflingar með ýmsum verkfærum sem nýtast vel.
Líkt og margir vita þá býður Ljósið einnig upp á stuðning og fræðslu fyrir fjölskyldur þeirra sem greinast og sóttu eiginmaður, systir, tengdamóðir og stjúpdóttir Esterar aðstandendanámskeið til að auka skilning á eigin líðan og Esterar í ferlinu öllu.
Ætlar að halda áfram að vinna í sjálfri sér
Ester glímir við aukaverkanir af lyfjameðferð sinni og því ekki enn komin til starfa á ný. „Ég var svo bjartsýn að halda að ég gæti byrjað að vinna á þessu ári en ég vinn mjög fyrir aukaverkunum lyfjanna og þjáist af heilaþoku og verkjum í liðum“.
Ester mun vera á andhormónameðferð næstu fimm ár og því mikilvægt að leggja góðan grunn að heilsunni áður en snúið er til baka til starfa. „Þess vegna ætla ég að vinna í sjálfri mér með hjálp Ljóssins því það er afar mikilvægt að halda sér í virkni þegar svona stendur á. Það er alltof algengt að fólk einangri sig og ætli sér að komast í gegnum svona veikindi á hnefanum. Það er aldrei vænlegt til árangurs og þess vegna sæki ég Ljósið og mun gera það áfram og mæli eindregið með því að fólk í sömu sporum og ég stígi skrefið og heimsæki Ljósið.“
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.