eftir Guðrúnu Friðriksdóttur, iðjuþjálfa í Ljósinu
Fullorðnir sinna fullorðins verkefnum, fara í vinnuna, skólann eða reyna að skilja vísitölu neysluverðs og börn leika sér.
Leikurinn er iðja barna og þess vegna fær hann oft að víkja þegar einstaklingar eldast og fara að sinna öðrum iðjum. Námið verður krefjandi eða vinnan tekur of mikinn tíma, fjölskyldan stækkar og það verður líka að skila skattaskýrslunni.
En við þurfum öll að geta gleymt okkur við eitthvað skapandi og leikur á öllum aldri hefur góð áhrif á sálina.
Skapandi verkefni
Sumir eru í vinnu sem leyfir þeim að skapa og leika sér, aðrir nota tómstundir til að fá útrás og gleyma sér við ýmiss konar handverk, hönnun eða hugmyndavinnu en það eru ekki allir svo heppnir. Það skiptir hins vegar merkilega miklu máli að gera eitthvað skapandi, reglulega og allt árið um kring. Hvað það er sem við gerum skiptir engan veginn jafnmiklu máli og að gera eitthvað og finna einhverja leið til að fá útrás fyrir sköpunarkraftinn.
Sumir segja að þeir hafi nákvæmlega enga þörf fyrir að skapa, þeir hafi engan áhuga, leiti ekki í að sinna handverki og hafi alls engan áhuga á því. Þessir einstaklingar viðurkenna þó margir að þeir geti alveg gleymt sér við grillið, matargerð eða bakstur. Klukkutímarnir hverfa þegar þeir eru í garðinum eða spila bridds eða hitta félaga sína í pottinum. Að spila eða finna upp á umræðuefnum með vinum sínum er ekki síðri sköpun en að smíða húsgagn eða baka köku eða hnýta veiðiflugu. Það er skapandi að búa eitthvað til, hvort sem það er hug- eða hlutlægt og sérhver manneskja verður sjálf að finna hvað það er sem gleður. Hvað ert þú að gera þegar þú gleymir hvað tímanum líður?
Leiktu þér eins og þú getur
Þegar aðstæður í lífinu breytast getur verið að það sem þú hefur lagt í vana þinn að gera árum eða áratugum saman sé ekki lengur hægt. Heilsan leyfir ef til vill ekki það sem hún leyfði áður, samkomubann setur strik í reikninginn og hvers kyns meðferðir og aðgerðir ræna orkunni. En það er alltaf hægt að finna einhver skapandi verkefni sem skipta okkur máli og aðlaga þau að aðstæðum hverju sinni.
Hafðu samband við fólkið þitt, vini og ættingja (eða iðjuþjálfann þinn í Ljósinu) og fáðu hugmyndir hjá þeim. Bjóddu þeim að skora á þig í eitthvað verkefni, rækta plöntu úr fræi, setja ljósmyndir í albúm eða velja liti á stofuveggina. Notaðu tækifærið til að prufa eitthvað sem þú hefur aldrei prufað áður eða kynna þér eitthvað sem þig langar til að gera í sumar eða næsta vetur eða á næsta ári. Lærðu tungumál, skrifaðu haikur, byggðu vélmenni úr Legokubbum eða gerðu eðlisfræðitilraunir í eldhúsinu, (YouTube lumar á alls konar leiðbeiningum og hugmyndum) – það er hægt að gera alls konar til að vera skapandi og leika sér.
P.S. Ef þú lest ensku gæti verið gaman að prufa eitthvað á þessum lista
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.