Víða er að finna hvata til hreyfingar á samskiptamiðlum, nú á tímum sóttkvíar og einangrunar.
Margir sem starfa við þjálfun sjá tækifæri í fjarþjálfun til að mæta breytingum á þörfum og starfsumhverfi.
Þetta er hið besta mál og munum við þjálfarar í Ljósinu einnig taka til hendinni og setja inn myndbönd til að mæta þörfum okkar skjólstæðinga sem eru oft ólíkar þörfum annarra.
En hvað með grindarbotninn?
Lítið hefur borið á umfjöllun um þjálfun mikilvægra vöðva í grindarbotninum. Grindarbotnsvöðvar styðja við grindarbotnslíffærin og hafa stjórn á þvag- og hægðalosun. Margar konur finna fyrir áreynsluþvagleka eftir meðgöngu og fæðingu en karlmenn geta einnig fundið fyrir þvagleka, einkum eftir aðgerð vegna blöðruhálskrabbameins. Meginorsök þvagleka eru slappir grindarbotnsvöðvar. Einkenni áreynsluþvagleka er að þvag lekur við aukinn þrýsting niður á grindarbotninn, svo sem við hnerra, hósta, hlátur og líkamlega áreynslu.
Þvagleki getur verið smávægilegur og haft takmörkuð áhrif á daglegt líf, allt upp í að vera það slæmur að valda mikilli skerðingu á lífsgæðum. Hægt er að draga úr þvagleka með þjálfun grindarbotnsvöðva. Þjálfunina þarf að stunda daglega í 2-3 mánuði til að ná tökum á vandanum en það er tíma vel varið. Í byrjun og á meðan verið er að læra æfingarnar og gæta að því að örugglega sé verið að þjálfa réttu vöðvana, borgar sig að gefa sér tíma og næði í æfingarnar. Smám saman, eftir því sem vöðvarnir styrkjast og æfingarnar eru betur lærðar, er hægt að stunda grindarbotnsþjálfun nánast hvar og hvenær sem er samhliða öðrum verkefnum.
Sem betur fer er meiri vakning meðal almennings og heilbrigðisstétta varðandi þetta vandamál.
Svona getur þú æft þessa vanræktu vöðva
Fyrsta skrefið er alltaf að finna grindarbotnsvöðvana því annars er hætt við því að rangir vöðvar séu spenntir, svo sem kvið-, rass- eða lærvöðvar. Grindarbotninn er þykkastur við endaþarminn og auðveldast er að finna spennuna þar, herpa eins og til að koma í veg fyrir að leysa vind, við það spennast einnig vöðvar kringum þvagrás og leggöng. Slaka á vel á eftir hverja spennu, finna greinilega muninn á því að spenna og slaka. Einnig er mikilvægt að anda eðlilega meðan þessar æfingar eru framkvæmdar því óeðlileg spenna í öndunarvöðvum getur einnig truflað þjálfun grindarbotnsins. Alls ekki er mælt með því að þjálfa með því að stoppa þvagbununa í hvert sinn sem vatni er kastað.
Sem betur fer er meiri vakning meðal almennings og heilbrigðisstétta varðandi þetta vandamál. Auðvelt er að nálgast leiðbeiningar á netinu fyrir grindarbotnsæfingar en einnig hafa margir fengið leiðbeiningar og fræðslu frá heilbrigðisstarfsfólki en eru kannski að gleyma að stunda æfingarnar reglulega. Gætið að því að gleyma ekki grindarbotninum í æfingarútínunni ef þörfin er til staðar. Þjálfarar Ljóssins veita ráðgjöf símleiðis vegna vandamála sem upp geta komið meðan Ljósberar geta ekki sótt Ljósið heim.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.