Kæru vinir,
Nú er liðin tæp vika frá því Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og við starfsfólkið erum smátt og smátt að komast aftur niður á jörðina eftir hlaupagleðina sem hjá okkur hefur ríkt.
Undirbúningurinn í ár hófst þegar hlaupahópurinn okkar hljóp vikulega um Laugardalinn og þegar líða tók á sumarið sáum við að á hverjum degi bættist fólk við í hópinn okkar á Hlaupastyrk þar sem það hafði valið að safna áheitum fyrir Ljósið.
Síðasta vikan fyrir hlaup var full af skemmtilegum viðburðum eins og pastaveislunni okkar þar sem hlaupagarpar og aðstandendur komu saman til þess að hlusta á Gunnar Ármannsson tala um hlaup og krabbamein og Fit and Run skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþons í Laugardalshöll þar sem sérmerktir bolir og dýrindis tómatar ruku út.
Þegar hlaupadagurinn sjálfur rann upp vorum við svo á víð og dreif um borgina. Okkar stóra og mikla klappstöð við JL húsið var vel sótt og stuðið þar mikið, við endamark stóð okkar fólk og afhenti orkubita og þakklætisknús, og við Naustabryggju mætti stór hópur til þess að hvetja alla þá sem fóru í heilt maraþon áfram þegar þeir nálguðust 30 kílómetramarkið. Að auki tókum við að okkur drykkjarstöðina í Bryggjuhverfinu þannig handtökin voru mörg, en fjörið á sama tíma enn meira – Þvílík gleði!
Nú að hlaupi loknu langar okkur að senda þakklætiskveðjur til allra þeirra sem komu að hlaupinu með einum eða öðrum hætti: Þið sem hlupuð, þið sem hvöttuð og þið sem styrktuð. Reykjavíkurmaraþon er einn stærsti fjáröflunarliður Ljóssins og það er óhætt að segja að árið í ár sýni að þjóðin sé með okkur í liði og vilji tryggja að endurhæfing krabbameinsgreindra fái brautargengi inn í framtíðina.
Alls hlupu 452 einstaklingar í nafni Ljóssins og söfnuðu samtals 14.418.056 krónum!
Þessi upphæð mun svo sannarlega koma að góðum notum en stærsti hlutinn fer í nýja húsið okkar sem flutt verður á lóð Ljóssins sunnan megin við Langholtsveg 47.
Við þökkum ykkur öllum innilega fyrir einstakann stuðning og velvilja í garð Ljóssins og hlökkum til að sjá ykkur að ári.
Við endum þetta með nokkrum skemmtilegum myndum frá deginum – Finnur þú mynd af þér? Endilega deildu henni áfram og taggaðu okkur:)
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.