Ljósið er 20 ára og af því tilefni hefur verið sett saman einstök pop-up dagskrá í ágúst og september – tímar sem spretta fram eins og blóm á sumri og bjóða þátttakendum að staldra við, tengjast og njóta. Bak við dagskrána stendur Hólmfríður Einarsdóttir, iðjuþjálfi en hún er ein af þeim sem lagt hefur sál og skapandi kraft í skipulagningu þessara litríku viðburða.
Hugmyndin að baki dagskránni

Hólmfríður Einarsdóttir, iðjuþálfi í Ljósinu, heldur utan um afmælisdagskrá fyrir þjónustuþega Ljóssins
Hólmfríður segir fjölbreytnina meðvitaða ákvörðun. Sem iðjuþjálfar er eitt af markmiðum okkar að styðja við innihaldsríka þátttöku í daglegu lífi þar sem þátttaka og tilgangur bætir almenn lífsgæði okkar. Við vinnum nú þegar með heildræna nálgun og bjóðum upp á fjölbreytta dagskrá. Starfsfólk Ljóssins og notendur eru duglegir að koma með hugmyndir af ýmis konar iðju hvort sem um er að ræða hreyfingu, handverk eða annað sem vekur áhuga en plássleysi hefur takmarkað hvað við getum boðið upp á. Þessir Pop-up viðburðir eru því dásamleg viðbót í endurhæfinguna á þessum skemmtilegu tímamótum.
Pop-up tímarnir spanna vítt svið – frá fróðlegum fyrirlesurum í róandi heilun og hreyfingu yfir í skapandi vinnustofur með lit, leir og tónlist. Þó viðburðirnir séu ólíkir eiga þeir kannski það sameiginlegt að vekja meðvitund um eigin líkama, umhverfið og líðan. En líka hvernig fræðsla, samvera með jafningjum og að stíga út fyrir þægindaramman með því að prufa eitthvað nýtt getur verið valdeflandi. Við höfum blandað saman dýpt og gleði með því að bjóða upp á tíma þar sem fólk getur leitað bæði út á við og inn á við. Þetta er ekki aðeins fræðsla eða skemmtun, þetta eru upplifanir sem snerta og styrkja.
Tilgangur endurhæfingar er ekki eingöngu að byggja upp styrk eða virkni heldur einnig að endurheimta sjálfstæði, byggja upp sjálfsmynd í nýjum líkama og finna tilgang. Fjölbreytileiki starfsins í Ljósinu á því ekki síður að vekja áhuga og kynna hina ýmsu möguleika sem finna má í samfélaginu í þeim tilgangi að viðhalda virkni og innihaldsríkri þátttöku að endurhæfingu lokinni. Við vonum svo sannarlega að þessir viðbótarviðburðir styðji við það.
Dagskráin hefst með fræðslu og fögnuði

Viðburðirnir eru fjölbreyttir og spennandi
Dagskráin hefst 14. ágúst með fyrirlestri Kristínar Huldu sálfræðings um Svefn og krabbamein. Við fáum til okkar fagfólk úr ólíkum áttum með erindi. Má þar nefna Jóhannes Kára augnlækni, Virpi Jokinen skipuleggjara, Lilju Guðmundsdóttur næringarfræðing og Jósep Ó. Blöndal lækni. Ég vona að sem flestir láti sjá sig í Hláturjóga enda er nauðsynlegt að leyfa gleðiboðefnunum að streyma um líkamann reglulega. Leirvitund, Ljósmyndun og dans- og hreyfivinnustofan er einnig mjög spennandi.
Dagskráin heldur áfram í september. Þá bjóðum við upp á tai chi, fyrirlestur um áhrif lyfja á augnheilsu og að sjálfsögðu handverk. Á afmælisdaginn sjálfan 5. september verður zumba til að koma öllum í góðan gír fyrir tónleika kvöldsins og endum svo dagskrána 8. september með yin jóga og bandvefslosun.
Engar kröfur – bara upplifun
Hólmfríður vill taka fram að engin reynsla eða þekking sé nauðsynleg á viðburðina og þetta sé kjörið tækifæri að prufa eitthvað nýtt. „Það eru engar kröfur á útkomu heldur bara mæta og leyfa sér að upplifa.“
Þátttaka í tímum krefst skráningar í móttöku Ljóssins. Við hvetjum alla sem eru að nýta þjónustu Ljóssins til að skoða dagskrána og finna sér eitthvað spennandi til að taka þátt í.
Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á heimasíðu Ljóssins.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






