Afmælisdagskrá Ljóssins – „Pop-up“ tímar

Við bjóðum upp á spennandi nýja dagskrárliði í Ljósinu í ágúst og september í tilefni 20 ára afmælis Ljóssins.

Mikilvægt er að skrá sig í viðburðina, skráning fer fram í móttöku Ljóssins

ÁGÚST 2025

SVEFN OG KRABBAMEIN – 14. ÁGÚST 2025 

Svefntruflanir eru algengur fylgifiskur krabbameina og krabbameinsmeðferða. Þá er líka algengt að svefntruflanir sem eru til staðar fyrir greiningu versni eða byrji að valda meiri truflun þegar fólk fær krabbamein. Svefntruflanir geta til að mynda verið það að eiga erfitt með að sofna, vakna oft á nóttu, sofa létt, ná að sofna en vakna fljótt aftur og svo mætti lengi telja. Á fyrirlestrinum verður fjallað um hvað svefn er, tengsl svefns og krabbameina og þá verður farið yfir ýmis ráð sem geta gagnast til að bæta svefninn, hvort sem vandi er tilkominn vegna meins, meðferðar eða hefur verið til staðar lengi.

Fyrirlesari: Kristín Hulda sálfræðingur
Staðsetning: Græni salur
Tímasetning: 10:00

FÆKKUM, FLOKKUM OG RÖÐUM – 18. ÁGÚST 2025 

Virpi fjallar mikið um áskoranir þess að sleppa tökunum en það er oft prófsteinninn í skipulags- og tiltektarverkefnum. Virpi tekur sjálfa sig ekki of alvarlega og leitast við að hafa öll erindin létt og aðgengileg.

Megináhersla erindisins er á hvernig skipulag nýtist sem verkfæri í átt að bættri líðan og á mikilvægi þess að skoða raunverulegar þarfir okkar og langanir hér og nú og aðgreina þær frá þörfum og löngunum liðinna tíma. Virpi vonast til að bæta líðan og létta lund þátttakenda og fjallar um alla þá þætti sem eru sammannlegir og sem flestir kannast við en sem okkur hættir stundum til að halda að hái engum í heiminum nema okkur sjálfum.

Fyrirlesari: Virpi Jokinen
Staðsetning: Græni salur
Tímasetning: 13:30

MEÐFERÐ, MATUR OG MILDI – 20. ÁGÚST 2025

Þessi fyrirlestur er ætlaður þeim sem eru í eða hafa lokið krabbameinsmeðferð og vilja öðlast betri skilning á því hvernig næring getur stutt við bataferlið og aukið vellíðan. Farið verður yfir hvernig matur getur veitt styrk og stuðning án þess að byggja á fullkomnun eða ströngum reglum, með áherslu á mikilvægi næringarefna fyrir orku, ónæmiskerfi og endurheimt, hlutverk trefja, andoxunarefna og plöntuefna, ásamt hagnýtum leiðum til að takast á við breytta matarlyst, meltingu eða orkustig — og ekki síst hvernig mildi gagnvart sjálfum sér gegnir lykilhlutverki í matarvenjum.

Fyrirlesari: Lilja Guðmundsdóttir næringarfræðingur
Staðsetning: Græni salur
Tímasetning: 13:30

DANSÞERAPÍA – 21. ÁGÚST 2025

Velkomin í 2,5 tíma vinnustofu þar sem við mætum líkamanum með nærgætni, forvitni og virðingu. Í gegnum dans- og hreyfimeðferð (Dance Movement Therapy) skoðum við líkamsímynd, líkamsvitund og tengsl. Við leitum svara við því hvað líkaminn geymir, hvernig hann tjáir tilfinningar, hvernig við getum treyst honum, tekið rými og upplifað tengsl við aðra og umhverfið. Vinnustofan byggir á mjúkum og skapandi æfingum sem efla tengingu við eigin líkama. Engin reynsla í dansi er nauðsynleg – aðeins vilji til að hlusta á sjálfan sig.

Kennari: Alexandra Mekkín Pálsdóttir, M.A. í Dance Movement Therapy
Staðsetning: Græni salur
Tímasetning: 9:30

LEIRVITUND – 22. ÁGÚST 2025

Leirvitund felur í sér vinnu með leir á annan hátt en við erum vön. Bara það að snerta leirinn og halda á honum í höndunum getur skapað ró og þægilega tilfinningu. Þegar unnið er með leirvitund er athygli beint að líkamanum og skoðað á meðvitaðan hátt hvernig við skynjum í líkamanum. Þessi aðferð hjálpar okkur að staldra við í augnablikinu og skapa þannig rými fyrir nýja og óvænta möguleika. Þetta getur stutt við tilfinningalega seiglu, innri ró og tengsl við okkur sjálf og aðra. Við vinnum á meðvitaðan hátt með það að hlusta með líkamanum, höndunum á leirinn og á það sem virðist liggja falið eins og fræ í leirnum og á sama tíma djúpt í okkur sjálfum. Hendurnar verða eins og eyru sem hlusta og við leyfum bæði höndinni og leirnum að hafa rödd.

Kennarar: Helga Arnalds og Nicola Visser
Staðsetning: Handverkssalur
Tímasetning: 10:00

NÚVITUNDAR TEIKNING OG VATNSLITIR – 25. ÁGÚST 2025

Slakandi og einföld teikniaðferð með vatnslitum. Hentar öllum sem geta haldið á penna og vilja nota sköpun til slökunar.

Kennari: Katla Sigurðardóttir
Staðsetning: Handverkssalur
Tímasetning: 10:00

HLÁTURJÓGA – 25. ÁGÚST 2025

Indverski læknirinn Madan Kataria er upphafsmaður Hláturjóga. Hann lét rannsaka og las fjölda rannsókna um áhrif hláturs á líkama og sál og merkasta niðurstaðan var sú að hvort sem að hlegið er vegna ytra áreitis eða af einskærri ákvörðun þá bregst líkaminn eins við og hin jákvæðu áhrif á sál og líkama eru þau sömu. Sami “kokteill” af gleði boðefnum streymir um líkamann. Tengslin milli hláturs, jógadjúpöndunar, teygjuæfinga og slökunar mynda hláturjógaæfingar þar sem allir geta þroskað með sér barnslega leikgleði og vellíðan.

Umsjónaraðili: Gleðismiðjan
Staðsetning: Græni salur
Tímasetning: 10:30

TÓNHEILUN – 27. ÁGÚST 2025

Slakandi djúpslökun með söngskálum og hljóðum. Hentar þeim sem vilja draga úr streitu, bæta svefn og upplifa innri ró.

Kennari: Berglind Baldursdóttir
Staðsetning: Græni salur
Tónheilun: 13:30

FORSETI Á HÆKJUM – 28. ÁGÚST 2025

Bakverkjasaga frægasta bakverkjasjúklings allra tíma.  Fróðlegur og skemmtilegur fyrirlestur um bakverki, verkjameðferð og heildræna sýn á stoðkerfisvandamál – sagður af einum kunnasta bakverkalækni landsins.

Fyrirlesari: Jósep Ó. Blöndal
Staðsetning: Græni salur
Tímasetning: 10:00

LJÓSMYNDUN – 26. ÁGÚST 2025

Á þessu örnámskeiði verður aðaláherslan lögð á myndbyggingu, þ.e. hvar við staðsetjum myndefnið í rammanum/myndinni sem við tökum og hvernig við notum bakgrunn og forgrunn til að gera myndir fallegri. Einnig verður komið inn á tæknileg atriði um ljósop, hraða og brennivíddir. Námskeiðið verður að mestu verklegt. Við byrjum á spjalli í Ljósinu og að því loknu förum við í myndagöngu þar sem þið fáið verkefni til að spreyta ykkur á. Fyrir alla sem hafa áhuga á að taka betri myndir.

Kennari: Bjarni Baldursson
Staðsetning: Handverkssalur
Tímasetning: 10:00-12:00

SEPTEMBER 2025

AUGNHEILSA OG ÁHRIF LYFJA – 3. SEPTEMBER 2025

Þurr augu, sem er mjög algengur fylgikvilli ýmissa lyfja, s.s. krabbameinslyfja, geta valdið miklum óþægindum. Jóhannes Kári augnlæknir ræðir við okkur um aukaverkanir lyfja á augnheilsu og mögulegar lausnir.

Fyrirlesari: Jóhannes Kári augnlæknir
Staðsetning: Græni salur
Tímasetning: 13:30

TAI CHI – 4. SEPTEMBER 2025

Æfingar með mjúkum hreyfingum sem bæta líkamsvitund, slökun og líðan. Tai Chi hentar fólki á öllum aldri og styrkir bæði líkama og huga.

Kennari: Dong Qing Guan
Staðsetning: Græni salur
Tímasetning: 10:00 og 11:00

VAFNINGSMYNDIR – 4. SEPTEMBER 2025

Skapandi iðja hefur margskonar jákvæð áhrif á líðan okkar og heilsu. Í vinnustofunni gerum við vafningsmyndir, sem er skapandi verkefni innblásið af verkum textíllistakonunnar Astrid Skipsted. Við leikum okkur með garn, liti og áferðir. Upplifum hvernig að vinna með höndunum kemur ró á hugann, veitir frí frá áhyggjum og grufli. Með einföldum aðferðum sköpum við lítil textílverk og eigum saman notalega stund.

Kennari: Guðný Katrín Einarsdóttir, iðjuþjálfi
Staðsetning: Handverkssalur
Tímasetning: 10:00

ZUMBA – 5. SEPTEMBER 2025

Í Zumba skiptir ekki máli hvernig sporin eru – heldur hvernig þér líður. Við hreyfum okkur í takt við suðræna tóna, hristum af okkur stressið og fyllum salinn af hlátri, orku og gleði.

Það er ómögulegt að vera í vondu skapi í Zumba. Þetta er tíminn þar sem við gleymum okkur í taktinum og finnum hvernig gleðin smitast út um allt.

Komdu eins og þú ert – og dansaðu eins og enginn sé að horfa!

Kennarar: Power Move Studio
Staðsetning: Æfingarsalur Ljóssins
Tímasetning: 12:30

YIN JÓGA OG BANDVEFSLOSUN – 8. SEPTEMBER 2025

Ljúf stund fyrir líkama og sál. Frábært tækifæri til að gefa líkamanum kærkomna mýkt, róa hugann og sleppa takinu á spennu og stirðleika. Yin Yoga eru rólegar og djúpar teygjuæfingar þar sem hverri stöðu er haldið í lengri tíma en í hefðbundnu jóga. Með því að dvelja lengur í teygjunum nær bandvefurinn að slaka á og liðleiki eykst. Bandvefslosun felur í sér sjálfsnudd með nuddboltum, sem hjálpar til við að losa um spennu í vöðvum og mýkja bandvefinn.

Tíminn er fyrir alla – hvort sem þú ert byrjandi eða vanur, þá munu þessar mínútur veita þér djúpa slökun og vellíðan.

Kennarar: Erla Ólafsdóttir og Fríða Hrund
Staðsetning: Græni salur
Tímasetning: 9:00 og 10:30