Kærleikskonur hlaupa með hjartað – fyrir Ljósið

Í ár tekur sérstakur hópur kvenna þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka – hópur sem lætur sig varða, hópur sem hefur gengið í gegnum margt saman og sameinast nú í hlaupinu með eitt markmið: að lýsa upp leiðina fyrir aðra. Þær kalla sig Kærleikskonur – og það er engin tilviljun.

Kærleikskonur hittust í Ljósinu haustið 2024, þar sem þær tóku þátt í grunnfræðslu fyrir konur á aldrinum 46-59 ára sem hafa greinst með krabbamein. Fljótt myndaðist sterk vinátta – fleiri konur bættust í hópinn og úr varð samheldinn kjarni þar sem kærleikur, stuðningur og samvera skiptu öllu máli.

„Við höfum hittst nánast vikulega í vetur – gengið saman, borðað saman og hlegið saman,“ segja þær. „Við höfum einnig haldið viðburði eins og undirfatamátun og kærleikspartý – því við trúum á að lifa lífinu á meðan við höfum það. Við styðjum hvor aðra með öllum tiltækum ráðum – og hlaupum nú saman fyrir þau sem þurfa á Ljósinu að halda.“

Hlaupahópurinn Kærleikskonur

Af hverju Ljósið?

Það er einfalt, segja Kærleikskonur: Þakklæti. „Án Ljóssins værum við ekki þar sem við erum í dag. Þar fengum við styrk, von, hlýju og samveru – ekki bara í gegnum læknisfræðilegt ferli, heldur í því að endurbyggja okkur sem manneskjur.“

„Ljósið hefur stutt okkur líkamlega, andlega og félagslega – og það hefur fært okkur vináttu sem við hefðum aldrei getað ímyndað okkur. Því finnst okkur eðlilegt að gefa til baka.“

Þær minna einnig á að Ljósið er rekið að mestu með frjálsum framlögum – og því skiptir hver króna máli.

„Þegar einhver í fjölskyldunni greinist með krabbamein, þá veikist ekki bara ein manneskja – heldur öll fjölskyldan. Ljósið er stuðningur fyrir alla – ekki bara þann sem er veikur. Það er svo dýrmætt að geta leitað þangað og fundið styrk.“

Við hlaupum fyrir þær sem fóru – og þær sem eru enn með okkur

Vináttan í hópnum hefur orðið sterkari með tímanum – og einnig dýpri. Því miður hafa Kærleikskonur þurft að kveðja þrjár úr hópnum, sem hafa farið yfir í sumarlandið eins og þær segja sjálfar. „Þær eru alltaf með okkur í hjartanu – og við hlaupum líka fyrir þær.“ Í haust ætla Kærleikskonur að fara saman í ferð til Spánar til að njóta. Því lífið er núna, segja þær, og við ætlum að lifa því með kærleika, von og þakklæti að leiðarljósi.

Taktu þátt – hlauptu eða labbaðu fyrir Ljósið

Við hjá Ljósinu erum óendanlega þakklát fyrir svona stuðning og samhug. Hvort sem þú ætlar að hlaupa sjálf/ur eða heita á hlaupara – þá skiptir framlag þitt máli.

Hægt er að heita á Kærleikskonur á vef hlaupastyrks – og ef þú ert að leita að hvatningu til að taka sjálf/ur þátt: þá er þetta merki. Ljósið er ekki sjálfgefið – og með því að hlaupa eða heita styrkir þú ekki bara endurhæfingarmiðstöðina, heldur lífsgæði fjölda fólks.

Saman lýsum við upp leiðina.

👉 Heita á Kærleikskonur hér: https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlaupahopar/16193-kaerleikskonur

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.