Ljósið í gegnum árin – saga úr hjarta starfseminnar

Í tilefni af 20 ára afmæli Ljóssins settumst niður með Margréti Frímannsdóttir sem fékk nýverið þá heiðursnafnbót að vera verndari Ljóssins. Margrét byrjaði öflug strax frá byrjun í grasrótinni og hefur fylgt vegferð og uppbyggingu starfseminnar alla tíð. Var hún fyrsti formaður stjórnar hjá Ljósinu. Hér deilir hún reynslu sinni – frá fyrstu skrefum í endurhæfingu eftir krabbameinsgreiningu til dagsins í dag þar sem hún sér starfsemina blómstra sem mikilvægt og lífsnauðsynlegt úrræði fyrir fjölda einstaklinga. Þetta er saga af hlýju, baráttu og von.

Margrét Frímannsdóttir ásamt Ernu Magnúsdóttur framkvæmdarstýru í afmæliskaffi Ljóssins

„Hlýja og umhyggja – það er Ljósið“

Fyrir rúmlega tuttugu árum síðan greindist ég með krabbamein og þurfti að fara í aðgerð. Í kjölfarið hófst endurhæfingarferli mitt, og það var einmitt þar, í endurhæfingu á vegum Landspítalans í Kópavogi sem ég kynntist Ernu í fyrsta sinn. Þarna hófst vegferð sem ég vissi ekki þá að myndi marka stóran hluta lífs míns.

Það sem stóð hvað skýrast upp úr í upphafi var hversu mikill munur var á því að stíga inn í þetta úrræði utan spítala – burtu frá spítalalyktinni og sjúkrahússumhverfinu. Í staðinn tók á móti manni hlýja, opnir faðmar og virðing – fyrir manneskjunni sjálfri, ekki bara greiningunni. Ég man hvað það var erfitt að mæta fyrst. Að stíga það skref að viðurkenna að maður þyrfti aðstoð, ég ætlaði að fara þetta á hnefanum. En svo var þetta hlýja viðmót sem braut niður varnirnar og veitti manni von.

Þegar Landspítalinn ákvað svo að loka úrræðinu í Kópavogi og flytja starfsemina aftur upp á spítala, inn í þröngt og kalt umhverfi tók Erna þá ákvörðun að stofna sjálfstæða starfsemi þar sem manneskjan yrði áfram í forgrunni. Það kom aldrei annað til greina en að fylgja henni. Okkur fannst þetta einfaldlega svo rétt að það þurfti að halda áfram. Þannig varð Ljósið til.

Á upphafsárunum einkenndist samstarf okkar af sameiginlegri hugsjón og djúpri trú á aðferðarfræðina. Þetta var nýjung á sínum tíma og ekki sjálfgefið að allir innan kerfisins viðurkenndu hana. Því miður hefur hluti heilbrigðiskerfisins enn ekki viljað viðurkenna þá leið sem Ljósið fór, þrátt fyrir árangurinn sem allir sem hafa leitað þangað þekkja vel.

Það sem hefur komið mér mest á óvart í gegnum tíðina er hversu vel þetta hefur staðið af sér tímans tönn – allar breytingarnar og áskoranirnar. Og svo þessi samhljómur allra sem hafa notið þjónustunnar, maður heyrir ekki neina neikvæða rödd. Það segir allt sem segja þarf.

Það sem hefur alltaf staðið mér næst er þessi persónulega nálgun og jafningjastuðningurinn. Að fá að ræða við aðra sem skilja, sem hafa gengið í gegnum svipað – það skiptir sköpum. Ljósið veitir ekki bara endurhæfingu, heldur von og virðingu. Og þegar maður lítur til baka fyllist maður einlægri þakklæti.

Í dag gegni ég hlutverki verndara Ljóssins og það er mér bæði mikill heiður og ábyrgð. Ég vil tryggja að andinn haldist, að hlýjan og umhyggjan sem býr í veggjum Ljóssins hverfi aldrei. Ég er stolt af því sem hefur náðst og sérstaklega stolt af Ernu, sem gafst aldrei upp – þrátt fyrir endalausa baráttu við kerfið.

Ef ég gæti sagt nýjum starfsmönnum eða sjálfboðaliðum eitt, þá væri það að taka til sín markmið Ljóssins og leyfa þeim að móta vinnuna. Þá nær þetta að halda áfram að vaxa og dafna. Ég sé Ljósið eftir tuttugu ár sem stóran, sjálfstæðan og áhrifamikinn endurhæfingarstað í landinu með sömu grunnstoðir og alltaf: virðingu, hlýju og von.

Að lokum vil ég segja einfaldlega: Takk. Takk fyrir að halda þessu starfi gangandi, takk fyrir að trúa á það, og takk fyrir að láta manneskjuna vera í forgrunni. Það skiptir öllu máli.

Erna Magnúsdóttir, framkvæmdarstýra Ljóssins afhenti Margréti Frímanns, verndara Ljóssins þakklætisvott

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.