„Ég hleyp fyrir mömmu – og fyrir Ljósið.“

Í sumar ætlar ein af okkar hugrökku stuðningskonum, Arndís Sigurbjörg Birgisdóttir, að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu og safna áheitum fyrir Ljósið. Hvatinn að hlaupinu er sterkari en flestir geta ímyndað sér – því móðir hennar greindist nýverið með krabbamein.

Þrjár kynslóðir standa saman

„Mamma hefur fengið ómetanlegan stuðning frá Ljósinu. Þar fær hún hlýju, hvatningu og þau úrræði sem skipta sköpum þegar jörðin brestur undir fótum manns,“ segir Arndís.

Með hverju skrefi í hlaupinu vill hún sýna stuðning, styrk og von. Hún segir að hlaupa hálft maraþon sé lítið á móti því sem fjölskyldur þurfa að ganga í gegnum í kjölfar krabbameinsgreiningar – en með samstöðu og hlýju má létta sporin.

„Með því að heita á mig hjálpar þú mér að lýsa upp leiðina – ekki bara fyrir mömmu, heldur fyrir alla þá sem þurfa að glíma við krabbamein. Við erum sterkari saman.“

Við hjá Ljósinu erum ótrúlega þakklát fyrir svona samhug og kraft – og við vitum að hvert áheit skiptir máli. Ef þú vilt leggja þessu fallega framtaki lið, þá geturðu heitið á þessa öflugu hlaupakonu og þannig stutt við starfsemi Ljóssins á vef hlaupastyrks.

Eða hver veit – kannski ert þú næst/ur til að hlaupa fyrir einhvern sem þér þykir vænt um?

Saman lýsum við upp leiðina.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.