Viðtal við Tínu Sigurðardóttur, fyrrum þjónustuþega í Ljósinu.
Höfundur Eva Guðrún Kristjánsdóttir
Þegar Tína Sigurðardóttir greindist með brjóstakrabbamein í mars 2024 var það eins og veruleikinn breyttist á einu augnabliki. Hún hafði verið aðstandandi áður og komið einu sinni í kaffi í Ljósið, en hugsaði aldrei að hún myndi sjálf þurfa að leita þangað. „Það var fjarlægt manni að maður myndi greinast með krabbamein – en samt veit maður að maður er jafn líklegur og allir aðrir. Af hverju ekki ég?“ segir hún.
Tína skráði sig strax í Ljósið eftir greiningu og var gripin inn í þjónustuna með hlýju og fagmennsku. „Ég skráði mig og daginn eftir var hringt í mig og mér boðið fyrsta viðtal við iðjuþjálfa. Ég trúði ekki hvað þetta gekk hratt fyrir sig. Þetta var mjög góð tilfinning – að vera gripin strax.“

Tína segir það dýrmætt að geta líka hlegið, skapað og verið í góðum félagsskap þó maður sé í erfiðu ferli. / Mynd: Sólveig K. Pálsdóttir
Endurhæfing sem nær til alls lífsins
Í Ljósinu hefur Tína nýtt sér viðtöl við bæði iðjuþjálfa og sálfræðing, tekið þátt í líkamsrækt og prófað handverksnámskeið. Hún lýsir starfseminni sem einstakri og mannlegri. „Starfsfólkið er frábært – í samskiptum og faglegheitum. Sama við hvaða störf þau eru, það skín í gegn þessi einlæga umhyggja fyrir fólkinu sem leitar hingað.“
Hún lýsir Ljósinu sem skjóli – öðrum heimi – þar sem hver og einn fær tækifæri til að hjálpa sér sjálfur. „Endurhæfingin hér er einstaklingsmiðuð, sem ég held að virki best. Það er hvatt til þátttöku, en enginn þrýstingur.“

Fagmennska og umhyggja eru meðal þeirra orða sem Tína notar til að lýsa Ljósinu / Mynd: Sólveig K. Pálsdóttir
Óvænt nánd og kærleikur
Það sem kom Tínu mest á óvart var hvernig hún sjálf brást við og tengdist fólkinu sem hún kynntist. „Það er eins og það komi það allra besta fram í fólkinu hérna. Mörg okkar höldum áfram að hittast eftir að endurhæfingunni lýkur.“ Hún rifjar sérstaklega upp fyrsta daginn sinn, þar sem sjálfboðaliðinn Sigrún settist hjá henni og tók hlýlegt spjall. „Það var svo fagmannlega og vinalega gert. Mér þótti vænt um það.“
Tína talar um Ljósið sem sitt annað heimili. „Það myndaðist sambland af léttleika og dýpri samræðum, eftir því sem fólk vildi. Maður gat sagt hlutina tæpitungulaust, án þess að þurfa að verja aðstandendur sína eða hafa áhyggjur af túlkun annarra.“
Verkfæri til að lifa með óvissunni
Endurhæfingin hjálpaði Tínu ekki aðeins með líkamann heldur einnig með hugann og sálina. „Maður fær hér öll þau verkfæri sem maður þarf til að komast í gegnum þetta ferli – og meira til. Þjónustan er dýpri og víðtækari en maður gerir sér grein fyrir.“ Hún nefnir að það hafi verið mikilvægt að geta rætt erfiða hluti við fagaðila og að jafningjastuðningurinn hafi verið ómetanlegur.
„Mér fannst Ljósið gefa mér tækifæri til að njóta lífsins – á meðan á þessu öllu stóð,“ segir hún. „Þegar maður er í erfiðu ferli, þá er það dýrmætt að geta líka hlegið, skapað og verið í góðum félagsskap.“
Hvatning til annarra
Tína vill hvetja alla sem greinast með krabbamein að leita sér aðstoðar og nýta þau úrræði sem eru í boði. „Ekki fara í gegnum þetta einn. Komdu í Ljósið og upplifðu þetta sjálfur. Þú þarft ekki að vita allt fyrirfram – það er í góðu lagi að taka einn dag í einu.“
Hún bætir við að mikilvægt sé að halda í iðju og áhugamál, þó þau séu einföld. „Þú þarft ekki að vera meistari til að geta skapað eitthvað. Bara að teikna Óla Prik eða mæta í jóga getur skipt sköpum. Þetta snýst líka um að vera í umhverfi þar sem þú getur verið þú sjálfur.“

Tína er útskrifuð úr Ljósinu í dag og horfir björtum augum fram á veginn / Mynd: Sólveig K. Pálsdóttir
Heildræn nálgun – og mannleg dýnamík
„Endurhæfingin í Ljósinu tekur á öllu því sem skiptir máli í lífinu. Þú ert hvattur til að huga að líkamanum, huganum og sálinni – án þrýstings,“ segir Tína. Hún lýsir Ljósinu sem stað þar sem kærleikur og nánd eru ekki bara markmið heldur lífstaktur.
„Þetta er ekki brotakennd upplifun – heldur stöðugt ástand sem maður tekur með sér heim. Það er þess vegna sem fólk sækir aftur og aftur í Ljósið.“
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.