Þegar Guðlaug Ragnarsdóttir greindist með brjóstakrabbamein aðeins 43 ára gömul tók lífið skyndilega u-beygju.
Hún lýsir því sem áfalli að fara úr því að vera heilbrigð í blóma lífsins yfir í að vera krabbameinssjúklingur á örfáum dögum. En hún lærði að takast á við þetta nýja líf – ekki bara fyrir sig, líka fyrir fjölskylduna sína.
„Það að greinast með krabbamein hefur áhrif á alla fjölskylduna“ segir Guðlaug. „Aðstandendur vilja styðja en finna sig oft í erfiðri stöðu. Þeir vilja hlífa þeim sem er veikur og þora kannski ekki að ræða sín eigin vandamál eða segja frá sínum líðan af ótta við að bæta álag ofan á það sem sjúklingurinn gengur í gegnum.“
En stundum er það einmitt samtöl sem þessi sem veita styrk. „Það er hollt og gott að geta talað saman um hversdagslegar áskoranir og finna jafnvægi í því hvernig fjölskyldan tekst á við stöðuna,“ segir Guðlaug.
Í fræðsluerindinu Samtalið heim, sem haldið verður í Ljósinu mánudaginn 24. febrúar, mun Guðlaug deila sinni reynslu og þeim bjargráðum sem fjölskyldan hennar nýtti sér í gegnum þetta krefjandi tímabil.
„Þegar ég greindist var yngri dóttir mín aðeins 13 ára og spurði strax: ‘Mamma, ertu að fara að deyja?’ Eldri dóttir mín tók þetta meira á hnefanum. Hún vildi bara standa við hliðina á mér og mætti með mér í lyfjameðferðir, hún felldi ekki mörg tár fyrir framan mig. Eiginmaðurinn leitaði svo í að vinna mikið í gegnum ferlið til að halda sér uppteknum. Að sjá hvernig fjölskyldumeðlimir bregðast ólíkt við getur verið áskorun,“ segir Guðlaug.
Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að þora að tala saman – aðstandendur þurfa að finna jafnvægi milli þess að styðja og fá sjálfir stuðning.
„Þetta eru skref sem þú þarft að taka og svo að lokum horfirðu í baksýnisspegilinn og segir: Þetta gat ég. Ég kláraði þetta.“
Samtalið heim býður krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra á fræðsluerindi um hvernig er hægt að styðja bæði þann krabbameinsgreinda og aðstandendur í gegnum krabbameinsferlið.
Erindið verður haldið í Ljósinu, mánudaginn 24. febrúar og fer skráning fram í móttöku Ljóssins.
Hægt er að lesa meira um Samtalið heim með því að smella hér.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.