Nýtt afmælismerki Ljóssins á degi krabbameins

Í dag, 4. febrúar, er alþjóðlegur dagur gegn krabbameini. Til hans var stofnað í framhaldi af heimsráðstefnu um baráttu gegn krabbameinum í París 4. febrúar árið 2000. Markmiðið með þessum degi er að vekja athygli og með því koma í veg fyrir milljónir ótímabærra dauðsfalla vegna sjúkdómsins, uppfræða og hvetja stjórnvöld og einstaklinga um heim allan til að skera upp herör gegn honum.

Á þessum fallega og mikilvæga degi kynnum við til leiks nýja afmælisútgáfu af merki Ljóssins. Í ár fyllir Ljósið okkar hvorki meira né minna en 20 ár og því ber að fagna. Þessi fallega viðhafnarútgáfa er unnin útfrá merki Ljóssins sem Anna Þóra Árnadóttir hannaði og færði Ljósinu að gjöf. Afmælisútgáfan var unnin af Hvíta Húsinu en á henni mynda fallegu logarnir í merkinu töluna 20 í tilefni afmælisársins. Við erum afskaplega ánægð og stolt yfir útkomunni sem mun prýða ásýnd Ljóssins út árið.

Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu- og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.