Þriðjudaginn 8. október klukkan 13:30 verður fræðslufyrirlestur og kynning á stoðvörum fyrir þau sem hafa undirgengist skurð vegna brjóstakrabbameins eða eru á leið í skurðaðgerð.
Það er mikilvægt fyrir þau sem gangast undir aðgerð á brjósti að huga vel að þjálfun og hreyfingu að aðgerð lokinni. Við inngrip sem þetta er ekkert óeðlilegt að skerðing á hreyfigetu verði í kjölfarið til að sporna gegn þeirri þróun er mikilvægt að byrja snemma að vinna gegn skerðingunni með réttum æfingum. Mikilvægt er að byrja mjög rólega og fylgja fyrirmælum frá læknum og sjúkraþjálfurum af spítalanum fyrstu 2-4 vikurnar eða á meðan skurðir eru að gróa.
Þolinmæðin skiptir máli
Að þeim tíma liðnum, ef allt hefur gengið að óskum og þið finnið að líkaminn er tilbúinn, er mikilvægt að byrja rólega að auka við æfingarnar og stækka hreyfiferlana, þó án þess að fara yfir sársaukamörk. Það skilar bestum árangri að gera fleiri endurtekningar og vera þolinmóður.
Skynsamlegt er að fá leiðbeiningar hjá fagaðilum hvaða æfingar henta á þessu tímabili, til dæmis hjá þjálfurum Ljóssins. Við hjá Ljósinu bjóðum einnig upp á æfingatíma sérsniðna að þessum æfingafasa sem nefnist Eftir brjóstaskurð. Eins er hægt að skoða video á heimasíðunni sem gott er að gera heima.
Algengar aukaverkanir
Helstu aukaverkanir eftir aðgerð á brjósti eru strengjamyndum og sogæðabjúgur, og gott að vera vakandi fyrir þeim. Strengir eru fyrirbæri sem geta myndast eftir aðgerð á brjósti og koma oftast fram innan 8 vikna frá aðgerð. Þetta getur verið þykkur strengur og/eða nokkrir þynnri þræðir sem liggja frá holhönd eða bringu og niður í upphandlegg eða jafnvel lengra niður. Strengirnir eru yfirleitt mjög sársaukafullir og skerða hreyfigetu talsvert.
Mikilvægt er að fá aðstoð hjá fagaðila og fara varlega í að mýkja upp strengina, og þannig auka hreyfanleika þeirra. Sjúkraþjálfarar vinna á strengjum með mjúkpartameðferð – léttum teygjum og æfingum. Verkjalyf geta hjálpað ef verkir koma í veg fyrir hreyfingu og teygjur.
Fyrirlesturinn er ætlaður þeim sem hafa fengið brjóstakrabbamein og gengist undir aðgerð á brjósti vegna þess ásamt þeim sem eiga eftir að fara í aðgerð.
Fyrirlesarar eru Guðrún Erla og Inga Rán, þjálfarar Ljóssins og svo kemur Gígja Grétarsdóttir, hjúkrunarfræðingur frá Eirberg með kynningu á stoðvörum.
Ekki er þörf á að bóka sig sérstaklega í viðburðinn en áhugasamir mega láta vita í móttöku uppá að við getum áætlað réttan sætafjölda.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.