eftir Birnu Markúsdóttur, íþróttafræðing í Ljósinu

Hefur þú einhvertímann farið út í hressandi göngutúr og komið til baka með líkama fullan af orku og huga fullan af gleði?

Þessi mikla sæla orsakast af örlitlum boðefnum sem bera nafnið endorfín. Endorfín dregur nafn sitt úr orðinu „endogenous“ sem réttilega mætti þýða sem „innrænn“ eða það sem er innra með okkur,  með viðskeytinu -orfín sem við mörg hver þekkjum úr orðinu morfín.

Já, það er rétt!

Orðið sjálft segir okkur nákvæmlega til um hlutverk þessa mikilvæga boðefnis – Það dregur úr sársauka og eykur jafnframt gleði. Það má segja að það sé mikilvægasta innihaldið í gleðikokteilnum okkar.

 

Hvert er hlutverk endorfína?

Ekki er alveg vitað hvert sé hlutverk endorfína að fullu en við vitum að þau tengjast hvata okkar til að stunda mikilvægar grunnathafnir eins og að borða, drekka, stunda líkamsrækt og kynlíf. Endorfín verða til í miðtaugakerfi okkar en á ákveðnum skeiðum í lífinu aukast þau til muna, til að mynda í meðgöngu. Í mikilli streitu (undir miklu álagi) eða sársauka stuðla þau að bættri andlegri og líkamlegri líðan.

Það má því segja að boðefnið skipti sköpun í þróunarsögu mannsins. Við hreinlega hefðum ekki lifað af ef þess hefði ekki notið við.

 

Hverjir eru jákvæðir eiginleikar endorfína?

Jákvæðir eiginleikar endorfíns eru sannarlega margir en ef þú ert enn efins um að þú þurfir að huga að hrista endorfínum í gleðikokteil þá eru hér nokkrir punktar til að draga þetta saman:

  • Létta geð
  • Minnka streitu og kvíða
  • Jákvæð áhrif á sjálfið
  • Draga úr sársauka

 

Hver eru einkenni skorts á endorfíni?

Mögulega ertu nú farinn að hugsa „Hvernig veit ég að það vantar endorfín?“ og það má einnig draga í einfaldan lista einkenni þess að líkaminn sé ekki að framleiða næg endorfín:

  • Kvíði – aukinn kvíðatilfinning
  • Verkir
  • Svefntruflanir
  • Hvatvís hegðun

 

Hvernig getur maður fengið góðan skammt af endorfínum?

Í Ljósinu leggjum við mikla áherslu á líkamlega endurhæfingu í ferli þeirra sem greinast með krabbamein. Allir þeir sem koma í endurhæfingu í Ljósinu hitta þjálfara sem metur stöðuna með viðkomandi og mótar með þeim áætlun um líkamlega endurhæfingu. Hreyfigeta, styrkur og þol eru meðal þeirra þátta sem við vinnum að en náttúrulegi gleðigjafinn er sannarlega mikilvægur þeim sem fara í gegnum lyfjameðferðir, skurðaðgerðir og geislameðferðir. Alltaf skiptir þó máli að ræða þá hreyfingu við fagmenntaða þjálfara sem geta aðstoðað þig að fá þinn náttúrulega boðefnaskammt á sem öruggasta vegu.

En það er ekki bara líkamlega endurhæfingin sem getur hjálpað þér að hrista í gleðikokteilinn og hér koma nokkrar skotheldar leiðir til að koma bros á vör og í huga:

  • Dansaðu í eldhúsinu
  • Farðu í hláturskast
  • Skelltu þér í nálarstungur
  • Hugleiddu
  • Stundaðu kynlíf
  • Listsköpun
  • Farðu í göngutúr og andaðu einungis með nefinu

 

Jæja, eftir hverju ertu að bíða? Af stað að hrista í gleðikokteil!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.