Að öðlast þrautseigju með núvitund

Eftir Elínu Kristínu Klar sálfræðiráðgjafa

 

Elín Kristín Klar

Á lífsleiðinni getum við ekki stýrt raunveruleikanum sem á okkur dynur. Erfiðleikar eins og heimsfaraldur eða erfið veikindi eru til að mynda staðreyndir sem við fáum ekki breytt. Góðu fréttirnar eru þó þær að það er ekki aðeins raunveruleikinn sjálfur sem hefur áhrif á tilfinningar okkar og hegðun heldur túlkun okkar á honum.

Það er oft talað um þrautseigju, kannski sérstaklega núna, á tímum heimsfaraldurs sem herjar á okkur öll sama hvar við erum stödd í heiminum. Skilyrt tilvera með allar sínar reglur, takmarkanir og erfiðleika sem fylgja ástandinu reynir á þolrifin og þrautseigju okkar.

 

Andlegt ónæmiskerfi
Enska orðið yfir þrautseigju er resilience sem er komið af latneska orðinu resilire,  eða að kasta frá sér. Því má hugsa sér þrautseigju sem eins konar andlegt ónæmiskerfi sem ver okkur í gegnum mótlæti og erfiða tíma. Það felur þó ekki í sér að hinir þrautseigu láta ekkert koma sér við heldur má frekar ætla að þeir sjái eitthvað jákvætt í aðstæðunum. Finni jafnvel tilgang í erfiðleikunum sem hluta tilverunnar. Fólk með miklar þrautseigju er ekki í sjálfsblekkingu eða óskhyggju heldur með bjartsýnt hugarfar og er líklegra til að reikna með jákvæðri útkomu á tímum óvissu.

Þrautseigja er ekki einvörðungu eiginleikinn til að komast í gegnum erfiðleika heldur einnig getan til þess að þroskast og vaxa í gegnum þá.Með þessu er ekki átt við að gera sér upp ánægju eða þykjast komast létt í gegnum erfiða tíma heldur að fókusera á að veita athygli þeim jákvæðu augnablikum og upplifunum sem við eigum í gegnum erfið tímabil. Slík þolgæði eru ekki örlög heldur getum við þjálfað þau með okkur til að efla þrautseigjuna.

En hvernig eflir maður slíkan eiginleika? Það er lykilatriði að fanga hugsunarferlið sem gerist á milli áhrifaríks atburðar og tilfinninga okkar. Það er túlkun okkar á aðstæðum sem ég nefndi í byrjun. Það skref á sér vanalega stað á svo örskömmu andartaki að við tökum ekki meðvitað eftir því.

Við þessar aðstæður reynist núvitundin ótrúlega dýrmæt. Núvitund þýðir að beina athyglinni að því sem er, á þessu augnabliki, eins og það er, án þess að dæma. Vinsældir þess að þjálfa núvitund sína hafa aukist gríðarlega á síðustu árum og var ég nýverið spurð á námskeiði hvort þetta væri ekki bara tískufyrirbrigði.

 

Ekki ný af nálinni
Núvitundin á uppruna sinn í fornum búddískum fræðum og hefur verið iðkuð í meira en 2.000 ár en aldrei hefur hún verið jafn vinsæl og viðurkennd og hún er í dag. Það er því alveg hægt að segja að hún sé í tísku. En af hverju ætli það sé? Kannski á hún einfaldlega einkar vel við í dag.

Við lifum á örum tímum þar sem kyrrstaða þekkist varla í daglegu lífi. Hversdagslífinu lifum við á hraðferð, upptekin af ýmsum verkefnum, það er vinnan, fjölskyldan, íþróttir, tómstundir osfrv. Auk þess sem við búum við stanslaust utanaðkomandi áreiti, mest af símanum sem við höfum flest alltaf á okkur þar sem síbyljandi tilkynningar frá samfélagsmiðlum, skilaboðum, tölvupóstum, osfrv. stoppa varla. Rannsóknir hafa meira að segja bent til þess að jafnvel þó að við séum með slökkt á símanum, þá hefur hann áhrif á athygli okkar og einbeitingu ef við aðeins sjáum til hans. Það virðist sem hluti af okkar athygli sé alltaf frátekin fyrir upplýsingaflæði símtækisins.

Jafnvel þegar það gefst gluggi þar sem dagskráin er tóm, þá kannast eflaust margir við tilfinninguna að eiga að gera eitthvað, hvort sem það er að útrétta, skipuleggja, þrífa heimilið eða eitthvað annað ‚gagnlegt‘ í þeirri meiningu að afkasta einhverju.

 

Hversu oft gefum við okkur raunverulega tíma í kyrrð?
Heimsfaraldurinn hefur líklega sín áhrif á marga af ofannefndum dagskrárliðum, að minnsta kosti tímabundið. Það er hinsvegar ekki sjálfvalið og upplifa það því margir sem skerðingu á frelsi en ekki sem sjálfvalið tækifæri til að kyrra hugann. Kyrrstaða (e. down time) er mikilvæg andlegri heilsu og þar af leiðandi gríðarlega gagnleg. Það getur haft heilandi áhrif að leyfa huganum að hvílast og rjúfa hið stanslausa utanaðkomandi áreiti – og þar kemur núvitundin inn.

Líklega þurfum við meira á núvitundinni að halda nú en nokkurn tímann áður og kannski ætti einmitt að horfa á hana sem tískufyrirbrigði sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

 

Núvitundaræfing í daglegu lífi:

Morgunstund í kyrrð og núvitund: Það getur verið gott að velja að byrja daginn ekki á því að skoða símann heldur gefa sér nokkrar mínútur í kyrrð fyrst. Það má vera upp í rúmi, hvort sem þú kýst að liggja eða setjast upp. Taktu t.d. eftir hljóðunum sem þú heyrir í kringum þig og einbeittu þér að þeim. Það gæti verið klukka á veggnum eða fuglasöngur úti, kannski heyrist í umferðinni eða einhverju allt öðru. Gefðu þér nokkrar mínútur til að vera í kyrrð áður en þú ferð af stað inn í daginn.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.