Pappír og pokar til prýði

Eftir Elinborgu Hákonardóttur, umsjónarmann handverks

Elinborg Hákonardóttir

Í síðustu viku skoraði ég á ykkur að leggja minna á budduna og umhverfið með því að nýta það sem til er í bland við sköpunarkraftinn. Í dag held ég áfram að gera það en nú ætlum við að skoða hvernig við getum látið pakkana draga fram bros og tilhlökkun þegar þeir sitja undir jólatrénu.

 

Innpökkun gjafa getur reynst mörgum töluverður höfuðverkur, svo við tölum nú ekki um umhverfisáhrifin. Hér eru því þrjár hugmyndir að innpökkun sem eru kannski ekki endilega þær fljótlegustu þó sumar séu það samt, en þær eru skemmtilegar, aðeins öðruvísi og sýna að þú hefur velt málunum fyrir þér.

 

Breyttu lestrinum í listaverk
Dagblaðapappír til innpökkunar; pappírinn er svo hægt að skreyta með því að stimpla á hann jólatré eða annað mynstur en svo er líka hægt að mála á hann. Gamlar bækur eða nótnablöð gæti líka verið gaman að nota með skemmtilegri útkomu. Fyrir litaglaðari einstaklinga er svo hægt að nota gömul tímarit, auglýsingabæklinga eða hvaða blöð það eru sem eru þér innan seilingar. Í stað venjulegs límbands væri svo hægt að nota skrautlímband.

 

Prjállausir pokar
Stundum getur það hentað betur að notast við gjafapoka en þá getur þú auðveldlega útbúið bæði úr dagblaðapappír, maskínupappír eða hvaða pappírsörk sem leynst getur á heimilinu. Að sjálfsögðu er líka hægt að nota gjafapappír frá því í fyrra, því í ár ertu auðvitað búinn að taka ákvörðun um endurnýtingu.

 

Og svo allt hitt
Þegar kemur að innpökkun og endurnýtingu þá er, eins og oft áður, ímyndunarafl þitt eina hindrunin og þá notum við netið. Pinterest og Youtube eru sem dæmi stútfull af kennslu og hugmyndum um hvað er hægt að gera. Gamla slæðan sem hefur ekki verið notuð í tuttugu ár er tilvalin til að nýta í innpökkun og líka bútasaumsefnin sem þú sérð fram á að nýta aldrei. Fyrir þá sem geta ekki hugsað sér að sleppa silfrinu er hægt að nota snakkpoka, snúa þeim á rönguna og þrífa. Vantar þig gjafakassa? Þá er tiltölulega einfalt mál að nýta boxin utan af seríósinu, óbreytt og skreytt eða með því að taka í sundur, snúa við og skera, klippa, líma og brjóta.

 

Rúsínan í pylsuendanum
Pakkaskraut. Það er lítið mál að lífga upp á gjafirnar og fegra með litlum og umhverfisvænum tilkostnaði. Könglar, greinar, blaðsíður úr gömlum bókum, greni og margt fleira er tilvalið að nýta. Það sem einnig mætti gera er að nýta tækifærið og fara yfir jólaskrautið þitt, er eitthvað þar sem þig langar ekki að eiga lengur en myndi koma guðdómlega út á gjöfinni til mömmu og pabba? Munið þið að stundum er það skreytingin sem einhver hafði fyrir að útbúa sem er geymd ár eftir ár og sett upp þegar gjöfin er löngu horfin úr minninu.

 

Hér fylgja nokkrir hlekkir með sem gætu gefið ykkur smá innblástur um hvað þið gætuð gert og vonandi líka verið ykkur hvatning til að hefjast handa.

Hérna er hægt að sjá í nokkrum einföldum skrefum hvernig hægt er að útbúa gjafapoka.
Hérna eru nokkrar hugmyndir um hvað hægt er að nýta til innpökkunar s.s. slæður og fleira.
Hérna er morgunkornskassi nýttur – en það er auðvitað líka hægt að fara einföldu leiðina og snúa honum bara við og skreyta.
Hérna er einföld leið til að gera kassa með áföstu loki. Ef þú þarft fleiri en einn er ágætt að byrja á að gera einn til prufu og skella sér svo í smá færibandavinnu. Þessir kassar eru ekki mjög stórir.

 

Gangi ykkur vel í undirbúningnum!
Jólakveðjur
Bogga

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.