Eftir Elinborgu Hákonardóttur

Elinborg Hákonardóttir

Margir hafa haldið og halda dagbækur, sumir hafa gert það frá því þau voru börn og aðrir hafa kannski gripið í það á ákveðnum tímabilum yfir ævina. Þegar við hugsum um dagbókarskrif þá er ekki ólíklegt að upp í hugan komi hugmyndir um mikinn texta, þar sem farið er yfir verk dagsins, hugsanir, áætlanir fyrir framtíðina og fleira, jafnvel setningin „Kæra dagbók“.
Þetta er allt gott og gilt en það eru til fleiri leiðir til að fylgjast með því sem þú vilt leggja áherslu á í þínu lífi.

Viltu setja þér markmið um að drekka meira vatn?
Áttu þér einhver sérstök hvetjandi orð?
Viltu fylgjast með eigin líðan yfir mánuðinn?

Það sem við tölum um hér sem flæðidagbók er kallað bullet journal (bujo) á ensku. Þessar dagbækur þurfa ekki að vera settar upp í tímaröð og innihald þeirra er algerlega sniðið að þínum þörfum og áherslum, enda ert það þú sem setur hana upp og stýrir innihaldinu. Það sem einkennir þessar dagbækur er að þær eru sjónrænt uppsettar og þannig getur verið auðvelt og ánægjulegt að fylgjast með árangri þínum í markmiðasetningu eða til að fletta upp hvetjandi orðum og öðru sem skiptir þig máli.

Áður en þú hefst handa er gott að vera búinn að velta fyrir þér hvað það er sem þú vilt setja í bókina eða byrja á t.d. titilsíða. En ef þig skortir hugmyndir að efni og eða framsetningu þá er mjög gott að fara til dæmis inn á Pinterest eða Youtube og sjá hvað fólk hefur verið að gera og hvernig þú getur aðlagað það að þínum stíl og hugmyndum.

Ef þú vilt vera ofur skipulagður og draga úr flæðinu er hægt að byrja til dæmis á að setja upp efnisorðalista en þá gæti verið hentugt að númera blaðsíðurnar. Einnig er hægt að útbúa sér „lykil“ það er hvað ákveðnir litir eða merki eiga að tákna. Það getur líka einfaldað málið þegar maður er að byrja að nýta sér „lykil“ frá reyndum dagbókarsmið.

Eða bara láta tilfinningarnar og skyndihugdettur ráða för, leyfa þér að skipta um skoðun og prufa þig áfram, ef þú ert á þeim stað með mér þá þykir mér gott að vera með rissblað við hönd líka þar sem ég get hent hugmyndum fram í fljótheitum og tekið snöggar ákvarðanir um hvort ég vilji vinna þær áfram.

Þetta þarf ekki að vera flókið og þú þarft ekki að vera snillingur í að teikna eða skrautskrift til að geta sett upp bók sem þú hefur ánægju af að breyta, bæta og skrá í.

 

 

 

Verkfæri.

Dagbók – gott er að kaupa dagbók sem er hugsuð fyrir þetta en þær eru með ljósum punktum með reglulegu bili á öllum blaðsíðum. Ég fékk mína í Tiger. En það er í góðu lagi að nota hvaða bók sem er, rúðustrikaða eða með auðum blöðum.

Blýantur og yddari – gott að nota HB eða 2H það er ekki of harðan því þú vilt geta strokað út og ekki of feitan af sömu ástæðu. Þetta fer svolítið eftir því hversu fast þú teiknar/skrifar.

Strokleður – Bara eitt sem virkar, ég sjálf er búin að nota svörtu Boxy strokleðrin síðan í menntaskóla og er ekki á leiðinni að fara að skipta.

Svartan filt penna – mjóan odd, mátt auðvitað eiga nokkra í mismunandi þykktum.

Tússliti – mér finnst gott að eiga tveggja odda tússpenna, með fínum oddi öðru megin og „pensli“ hinum megin. Keypti mína á Amazon en þeir fást til dæmis líka í A4.

Málmklemmur – 2 stk.  ekki bráðnauðsynlegt en þægilegar til að nota svo bókin haldist opin á meðan þú ert að vinna í henni. Mig minnir að ég hafi keypt mínar í Tiger en þær ættu að fást í ritfangaverslunum líka.

Reglustika – ekki bráðnauðsynleg en flýtir fyrir og þægilegt að hafa hana.

Annað sem gaman gæti verið að hafa en engan vegin nauðsynlegt er t.d. sirkill, línuveiðari, gráðuboga/hring, gel pennar og glimmer pennar, gatarar (puncher), stimplar, stenslar, vatnslitir eða blek og þá auðvitað penslar, límmiðar, washi-límband og margt fleira en um að gera að prufa sig áfram.

Ef við viljum hafa þetta ofur einfalt þá þarf í raun ekkert af þessu nema dagbók og skriffæri, allt annað eru einungis skemmtileg verkfæri sem hægt er að bæta í safnið síðar ef vilji er fyrir hendi ef það er ekki þegar til á heimilinu.

 

 

 

Þar sem Youtube er með ansi mikið úrval af videóum um flæðidagbækur hef ég tekið saman nokkra hlekki sem mér þótti áhugaverðir.

Plant based bride er með nokkur myndbönd en hún sjálf hefur haldið svona dagbækur síðan um 2013. Endilega skoðið líka hlekkina sem hún setur við sín myndbönd.

Pick up limes fer hér yfir hvernig hún gerir sína dagbók en hún hefur minimaliskan stíl – þetta myndband er mjög skýrt varðandi mögulega uppsetningu á dagbók, ef þú hefur áhuga á að nýta þér þetta dagbókarform á skipulagðan máta strax frá byrjun.

Productivity game hér er farið yfir aðferðina út frá bókinni sem Ryder Carrol hönnuður skrifaði en hann kom fram með hugmyndina um flæðidagbók til að takast á við eigin athyglisbrest.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.