Þú ert í raun sterkari en þú heldur

eftir Maríu Ólafsdóttur

Kristófer Orri Svavarsson er 18 ára nemandi á félagsfræðibraut í Kvennaskólanum í Reykjavík. Kristófer er fróðleiksfús, finnst gaman að læra og komast að nýjum hlutum og ver því frítíma sínum oftast í lestur. Einnig hefur hann mjög gaman að stuttmyndagerð og í raun öll sem kemur að vinnslu myndefnis.

Kristófer er ákveðinn í að njóta góðu dagana enn betur

„Ég hef búið sjálfur til nokkrar stiklur af einum af mínum uppáhalds þáttum í frítímanum sem ég set inn á Youtube. Svo finnst mér líka gaman að spila tölvuleiki og að hanga með vinum mínum,“ segir Kristófer sem stefnir að útskrift úr Kvennaskólanum vorið 2021 og nám í tölvunarfræði í framhaldinu.

Kristófer hefur nú náð nærri fullum bata en hann greindist með eitlakrabbamein á nærra þriðja stigi í mars 2019 og var í lyfjameðferð fram á haust. Slíkt krabbamein er mjög sjaldgæft meðal ungs fólks en að jafnaði greinast með það hérlendis tveir á ári á aldrinum 18-35 ára.

Kristófer talar af yfirvegun og æðruleysi um þetta tímabil í lífi sínu og segist hafa tekið veikindum sínum af stóískri ró þó svo að greiningin hafi vitaskuld reynst honum og fjölskyldu hans mikið áfall.

Byggði upp þol í Ljósinu

Mamma og tvíburasystir Kristófers hvöttu hann til að byrja að koma í Ljósið sumarið 2019. Hann segir þjónustuna þar hafa hjálpað sér mikið og hann sækir enn hreyfingu í Ljósinu.
„Ég var með mjög lítið þol eftir lyfjameðferðina þegar ég byrjaði hér og hef fengið góðan stuðning við að byggja mig upp með stuðningi þjálfarana í Ljósinu. Nú mæti ég orðið oftar í ræktina en fyrir veikindin,“ segir Kristófer.

Í Ljósinu eru sérstök námskeið og þjónusta í boði fyrir börn og unglinga og fjölskyldur þeirra. Kristófer segir ekki talað ýkja mikið um hans aldurshóp því krabbamein sé það óalgengt á þessum aldri og því mikilvægt að ungt fólk á hans aldri geti leitað sér bæði stuðnings í hópi jafningja og fræðslu á stað eins og Ljósinu.
Lyfjameðferð við krabbameininu reyndist Kristófer mjög erfið en hann fékk mikla verki í mjaðmir sem í ljós kom að orsökuðust af drepi eða beinbjúg sem hafði myndast í mjaðmakúlunum. Slíkt er aukaverkun þeirra lyfja sem hann fékk en eftir vel heppnaða aðgerð gengu verkirnir til baka. Nýjum lyfum, sem Kristófer fékk á tveggja vikna fresti, fylgdi síðan slappleiki sem hann líkir við að vera veikur af magapest og flensu á sama tíma.

Kristófer ásamt Hauki og Eiríki, þjálfurum í Ljósinu.

„Það reynir á andlegu hliðina að vita að þú átt framundan daga þar sem þér mun líða illa en í raun ertu meira hræddur við augnablikið en sársaukann. Þú munt alltaf þola hann og getur tekið miklu meiru en þú ímyndar þér,“ segir Kristófer sem reyndi að skipta þessu tímabili upp í góða og slæma daga og einblína á að njóta þeirra góðu.
„Fyrir þá sem standa í sömu sporum og ég hef ég aðallega tvö heilræði. Það fyrra er að maður verður að drekka vatn og ef ekki það þá orkudrykk,safa eða eitthvað sem mann finnst gott. Annað er að borða mat, jafnvel þó það geti reynst mjög erfitt því matur er jú næring og þér mun nánast alltaf líða betur eftir að hafa borðað. Þetta eru tveir hlutir sem þú getur stjórnað í ferlinu, rétt eins og hreyfing og svefn,“ segir Kristófer.

 

 

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.