eftir Margréti Örnu
Í gegnum huga okkar fara þúsundir hugsana á hverri sekúndu og við grípum einungis brotabrot af þeim. Sumar af þessum hugsunum festast í undirvitund og hafa áhrif á það hvernig við skilgreinum okkur, hvernig okkur líður og hvernig við bregðumst við. Það er oft talað um að við séum þrælar hugans, að það sé sem sagt hugurinn sem stjórni og þetta getur leitt af sér óskynsamlegar ákvarðanir, slæm samskipti við aðra og ranga sjálfsmynd, svo dæmi séu tekin.
Þegar þú lærir að stjórna huganum er afraksturinn árangur, hamingja og velmegun. Raunverulegt hlutverk huga þíns er að þjóna sálinni. Þegar hann gerir það lifir þú í trausti, ert hamingjusamur og upplifir ekki skort.
Aftur á móti þegar hugurinn er fullur af tilfinningum, venjum, áætlunum og undirvitund er full af alls konar upplifunum og reynslu þá förum við að taka rangar ákvarðanir sem hafa þær afleiðingar að við erum ekki hamingjusöm og erum ekki sátt.
Hvað gerist þegar við hugleiðum?
Hugleiðsla hefur áhrif á efnaskipti líkamans og breytir því hvernig heilinn vinnur. Við erum að hafa áhrif á innkirtla og meðal annars heiladingulinn sem stjórnar flestum hormónum líkamans.
Í hugleiðslu erum við að stilla tíðni hugans. Það má líkja því við að finna rétta rás á útvarpinu til að ná sambandi.
Flest það sem við hugsum er sóun á orku og það að hafa hluti á heilanum er enn meiri sóun á orku. Með hugleiðslu hreinsum við úr undirvitund. Talið er að 75% af því sem við gerum komi þaðan. Hugsanir, vanamynstur, gildi og alls konar dót sem við teljum okkur trú um að sé raunverulegt en er það ekki. Hugleiðsla hreinsar út undirvitund og þannig losnar þú við sársaukann.
Gott er að hafa það í huga að þú ert ekki hugur þinn og þú ert ekki hugsanir þínar. Hugur þinn skilgreinir ekki hver þú ert. Eitt af stærstu markmiðum hugleiðslu er að beisla hugann og hætta að vera þræll hans, að ná stjórninni til baka. Það þýðir þó ekki að þú losir þig við hugann, stoppir hann eða hafnir honum, þvert á móti verður hann þér gagnlegri en áður og þú lærir að vera við stjórnina.
Hugurinn sjálfur stoppar aldrei og þess vegna tölum við um að kyrra hugann. Þegar þú byrjar að hugleiða þá leyfir þú öllu að vera eins og það er og fylgist bara með. Að reyna að nota hugann til að segja huganum að hætta er eins og að reyna að stoppa hvirfilbyl með því að blása á hann. Það er of mikið í gangi.
Við viljum ekki lifa þannig að við séum bara rétt að lifa af. Við viljum upplifa stórkostlega hluti og eiga stórkostlegt líf. Það er það sem við erum hér fyrir.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.